Það er óhætt að segja að Gunnar Nelson sé fræknasti bardagakappi Íslendinga um þessar mundir. Þetta 23 ára hörkutól fæddist á Akureyri en flutti snemma til Reykjavíkur og ólst þar upp. Foreldrar Gunnars eru þau Guðrún Hulda Gunnarsdóttir Nelson og Haraldur Dean Nelson.
Gunnar keppir bæði í blönduðum bardagalistum (MMA) og uppgjafarglímu. Hann hefur þó lagt stund á fleiri íþróttir. „Ég keppti í fótbolta þegar ég var gutti og keppti líka í skák þegar ég var ennþá minni. Svo byrjaði ég að æfa karate þegar ég var 13 ára og keppti nokkrum sinnum á þeim vettvangi,“ segir Gunnar en hann var Íslandsmeistari unglinga í karate þrjú ár í röð, ásamt því að vera landsliðsmaður í karate frá 15 ára aldri. Hann var valinn efnilegasti karatemaður Íslands 16 ára gamall. Gunnar æfði líka íshokkí um tíma.
Gunnar er nýkominn heim frá Írlandi eftir að hafa unnið sigur á Úkraínumanninum Alexander Butenko í blönduðum bardagaíþróttum (MMA). Á nýafstöðnu uppgjafarglímumóti á Íslandi stóð hann uppi sem sigurvegari í -88 kg. flokki karla og opnum flokki karla. Það er því skammt á milli stórra högga hjá honum en aðspurður segist Gunnar ekki þurfa að taka sér sérstaka hvíld á milli átaka „Maður getur alveg keppt með svona stuttu millibili, það fer að vísu eftir því hvernig stendur á hjá manni, en það er allt í lagi að taka þátt í svona móti nokkrum vikum eftir bardaga,“ segir Gunnar.
Undirbúningur fyrir mót er ekki flókinn að sögn Gunnars „Ég æfi bara niðri í Mjölni eins og alltaf, ég breyti ekki mikið þótt mót sé á næsta leiti.“ Aðspurður hvort hann sé á sérstöku mataræði segir hann svo ekki vera „Ég borða bara hollan mat sem er nálægt náttúrunni, ekki of mikið og ekki of lítið.“ Hann segist af og til borða nammi „en ég reyni að hafa það í lágmarki.“ Aðspurður hvort hann hafi ekki þolað eitthvert tjón eftir öll átökin segir hann svo ekki vera. „Ég hef verið blessunarlega laus við öll meiðsli.“
Verð í þessu fram á elliárin
Gunnar æfir hjá Mjölni, en félagið hefur verið mjög sigursælt á bardagalistamótum. Á nýafstöðnu uppgjafarglímumóti unnu Mjölnismenn í öllum flokkum nema einum.
Hann byrjaði að æfa þær tegundir bardagaíþrótta sem hann stundar í dag þegar hann var 15 ára gamall. Hann hefur þannig náð þessum mikla árangri á tiltölulega skömmum tíma. Aðpurður hverju megi þakka þennan góða árangur segir hann: „Miklum æfingum og góðum félagsskap. Mér finnst þetta þar að auki mjög gaman og mér líður vel þegar ég æfi og keppi. Ég stefni í að vera í þessu fram á elliárin.“
Gunnar æfir líka í Renzo Gracie-akademíunni í New York undir stjórn Renzo Gracie og Johns Danaher, en hefur einnig æft í Dublin og Manchester. Hann er atvinnumaður í blönduðum bardagaíþróttum og hefur unnið til fjölda verðlauna á stórmótum. Þar má helst nefna gullverðlaun á Pan American 2009 og New York Open 2009 og silfurverðlaun í BJJ árið 2009.