Kvótafrumvarið fái hraðferð

Árni Þór Sigurðsson.
Árni Þór Sigurðsson. Ómar Óskarsson

„Ég vonast til þess að mælt verði fyrir málinu í næstu viku. Það er síðasta vikan fyrir páskaleyfi,“ segir Árni Þór Sigurðsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, um væntingar sínar um viðbrögð þingsins við nýju sjávarútvegsfrumvarpi.

Árni Þór reiknar með að tvær til þrjár vikur líði frá því frumvarpið fari til nefndar á miðvikudag eða fimmtudag í næstu viku og þar til það komi til 2. umræðu. Þá eigi að óbreyttu að taka við stutt ferli.

Kallar til sín gesti

„Það væri auðvitað ákjósanlegt að þegar búið er að mæla fyrir málinu að það komist þá til nefndar og fari þá í umsagnarferli. Það tekur yfirleitt tvær til þrjár vikur. Þá tekur nefndin málið til sín, fer yfir umsagnirnar og kallar til sín gesti. Það getur tekið talsverðan tíma.

Þegar málið er komið út úr nefndinni og í aðra umræðu er ekki endilega langt í að málið verði afgreitt. Lengsti vinnslutíminn er á milli fyrstu og annarrar umræðu. Í sjálfu sér getur nefndin byrjað að fjalla um frumvarpið þó að umsagnarferlið sé enn í gangi. Nefndin getur byrjað að fá til sín ráðuneytið og aðra slíka til þess að fara yfir frumvarpið og lesa það saman.

Það er hið hefðbundna ferli þegar mál er komið til annarrar umræðu. Það er ekki alltaf sem að mál fara til nefndar á milli 2. og 3. umræðu. En umdeild mál fara það iðulega og ég reikna með að þetta mál sé þeirrar gerðar að það fari til nefndar milli 2. og 3. umræðu. En nefndin þarf ekki að nota langan tíma á því stigi. Það gæti verið spurning um einn til tvo daga og þá fer málið í 3. umræðu og svo til afgreiðslu,“ segir Árni Þór sem er bjartsýnn á að stjórnarflokkarnir styðji frumvarpið.

Góður meirihluti

„Ég geng út frá því. Ég veit að það er góð samstaða um það hjá okkur og ég reikna með að það sé eins hinum megin,“ segir hann og á við flokk sinn VG og samstarfsflokkinn, Samfylkinguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert