Steingrímur býst við átökum

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, vék að sjávarútvegsmálunum á flokksráðsfundi …
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, vék að sjávarútvegsmálunum á flokksráðsfundi VG í febrúar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kveðst ekki eiga von á því að kvótafrumvarpið „renni fyrirhafnarlaust“ í gegnum þingið þegar það kemur til umsagnar til þess dómbærra aðila sem og hagsmunaaðila.

Kvótafrumvarpið hefur nú verið sent til þingflokka stjórnarflokkanna en það var sem kunnugt er samþykkt á ríkisstjórnarfundi í dag eftir afgreiðslu atvinnuveganefndar.

Steingrímur segir að ekki verði greint frá efnisatriðum frumvarpsins á þessu stigi. 

Skýrist eftir helgina

„Nú er staða málsins þannig að ég tjái mig ekki um það efnislega. Það er á leiðinni til þingflokkanna og við virðum það og segjum ekki frá málinu opinberlega og kynnum það ekki fyrr en það er komið á þann stað. Þannig að ég ætla ekkert að tjá mig um það.

Ég er mjög ánægður með að málið fór greiðlega í gegnum ríkisstjórn í morgun. Það var góð samstaða um að afgreiða það þaðan og svo áfram til þingflokka. Vonandi verður það sama upp á teningunum þar og þá er málið komið á næsta stig, sem er að fara fyrir þingið.

Um leið og þingflokkarnir hafa fjallað um það bíð ég spenntur eftir því að kynna það opinberlega. Ég vil gjarnan gera það eins fljótt og hægt er þannig að það þurfi ekki að byggja á getgátum um innihaldið og málið þá talar fyrir sig sjálft. Það verður því miður að bíða eftir því en það er ekki langur tími. Það er þá í mesta lagi fram yfir helgina.

Skapi stemningu og lendi málinu

Steingrímur reiknar með einhverjum núningi þegar málið kemur til umsagnar hagsmunaaðila.

„Ég held að svona mál renni nú aldrei fyrirhafnarlaust í gegn. Þetta er nú einu sinni mjög stórt og umdeilt mál og skiptar skoðanir um það en ég er að vona að það sé hægt að skapa þá stemningu að núna sé tækifæri til þess að lenda málinu í sæmilegri sátt og þá er alveg nægur tími til stefnu fram í sumarbyrjun til að gera það. Við verðum að sjá til hvernig gengur,“ segir Steingrímur J. Sigfússon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert