Gríðarlegur samdráttur hefur orðið hjá embættum lögreglunnar á landsvísu í fjölda ekinna kílómetra. Þegar litið er á þróunina frá árinu 2007 til ársins í ár má sjá að akstur lögreglu hefur dregist saman um þrjátíu prósent. Þá er útlit fyrir verulegan samdrátt á þessu ári, sökum aukins kostnaðar.
Kerfið virkar þannig að ríkislögreglustjóri leigir embættum lögreglunnar ökutækin. Bílamiðstöð ríkislögreglustjóra stendur straum af öllum gjöldum, eldsneyti, viðhaldi og stofnkostnaði fyrir ökutækin. Lögregluembættin greiða svo hluta stofnkostnaðar í hverjum mánuði og svo kílómetragjald.
Þegar litið er á tölur um ekna kílómetra sést að árið 2007 voru þeir 5.521.861 og er þá miðað við öll lögregluembætti landsins, ríkislögreglustjóra og lögregluskólann. Í fyrra voru hins vegar eknir 3.942.515 km hjá sömu embættum. Samdráttur í eknum kílómetrum er því 1.579.346 km. Þar af munar 612.531 km hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins.
Enn er útlit fyrir að draga verði úr akstri á árinu 2012. Orsakir þess má helst finna í því að enn er gerð krafa um niðurskurð hjá lögreglu en ekki síður sökum þess að ríkislögreglustjóri hækkaði kílómetragjaldið frá og með 1. febrúar sl.
Gjaldið hefur ekki hækkað undanfarin tvö ár en hækkunin í ár er á bilinu 20%-110%, mest er hækkunin fyrir akstur bifhjóla.
„Þetta hefur komið illa við embættið, eða löggæslusvið þess,“ segir Jónas Wilhelmsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Eskifirði. „Við erum svolítið dreifðir um Fjarðabyggð, Djúpavog og Höfn og þetta þýðir að við erum minna á ferðinni. Við sinnum því löggæslu ekki eins vel og við vildum gera. Það er bara svoleiðis.“
Akstur hjá lögreglunni á Eskifirði hefur dregist saman um 41% ef litið er til tímabilsins 2007-2011. Í fyrra voru eknir 161.524 km en þeim mun fækka mikið í ár. Hækkun akstursgjaldsins þýðir að þær áætlanir sem við gerðum standast ekki lengur og við þurfum að draga úr akstri um 32 þúsund kílómetra á þessu ári. Það er svakalegt,“ segir Jónas sem tekur þó fram að hann skilji vel að gjaldið hækki. „Þeir standa að sjálfsögðu frammi fyrir því að eldsneytisverð hækkar, eins tryggingar, aðföng, varahlutir og viðhald. Maður skilur það. Hins vegar er spurning með formið, þ.e hvort það sé að skila því sem það á að gera.“
Þegar dregið er úr akstri þýðir það, að breyta þarf vinnulagi. Jónas segir að lögreglubílar séu því mun oftar kyrrstæðir á ákveðnum stöðum frekar en að ekið sé um. „Við erum ekki eins mikið á ferðinni, ekki inni í íbúðahverfum.“
En sést þetta á afbrotatölum?
„Ég myndi segja það, það sést alveg. Það er miklu minna um hraðaksturstilvik. Það skýrist af því að við erum minna úti á vegum, en kannski er einnig almennur samdráttur í akstri.“
Það er þó ekki aðeins hraðakstur sem erfiðara er fyrir lögreglu að taka á, einnig að hafa uppi á ökumönnum undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Og þó skráðum brotum fækki er ekki hægt að segja að um árangur sé að ræða. „En þetta er það sem menn verða að grípa til þegar rekstrarféð er svo knappt skorið,“ segir Stefán Skarphéðinsson, lögreglustjóri í Borgarnesi. „Við þurftum að skila inn bíl, og minnka hreyfanleikann.“
Akstur í Borgarnesi hefur minnkað um 53% á umræddu tímabili, 2007-2011. Stefán segir að reynt sé eftir megni að fylgjast með umferðinni og í henni séu menn ekki undir áhrifum. „Og það er alveg ótrúlegt hvaða árangur þó næst. Við erum einnig með fíkniefnahund, þannig að ef afskipti eru höfð af bílstjórum er hann oft með í för.“
Stefán segir að sama þróun sé hjá lögreglunni á Borgarnesi og annars staðar, ekki stefni í annað en minna verði ekið í ár en í fyrra. „En svo koma alltaf upp slys og útköll, s.s. leit að mönnum, sem verður að sinna, og það skekkir kannski myndina.“
Eins og áður segir hefur samdráttur í akstri verið mestur á höfuðborgarsvæðinu, ef litið er til ekinna kílómetra. Í prósentum talið nemur samdrátturinn 31%. Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri embættis lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, segir að ef miðað er við óbreytta notkun á ökutækjum í ár getur kostnaðurinn af hækkun kílómetragjaldsins numið rúmlega fjörutíu milljónum króna.
Mest er hækkunin á bifhjól. Verða þau ekki minna notuð?
„Eigum við ekki að segja, að þeim verði minna ekið. Við verðum áfram sýnilegir á hjólum. Við breytum aðeins hjá okkur og reynum auðvitað að ná þessum kostnaði niður.“ Halldór tekur þó fram að engar formlegar ákvarðanir hafi verið teknar hjá embættinu um að minnka aksturinn meðvitað. „Við erum með ákveðinn mannskap í vinnu og notum hans eins og þörf er á hverju sinni. En við munum gera áherslubreytingar á notkun á þessum tækjum.“
Halldór tekur þó fram að þetta sé aðeins einn þáttur. „Þetta er úti um allt hjá okkur, það að við erum að reyna finna leiðir til að mæta versnandi stöðu.“