Bandarískur geðlæknir, Kurt Sperling, varð afar undrandi þegar hann sótti Ísland heim í fyrsta skipti nýverið vegna þess hve margir ferðamenn voru á Íslandi. Hann óttast að ósnortin náttúra landsins eigi eftir að spillast vegna ágangs ferðamanna.
Þetta kemur fram í grein sem birtist á vef Bloomberg í dag en þar er fjallað um aukningu ferðamanna á Íslandi en líkt og fram kom á mbl.is á laugardag má gera ráð fyrir því að fimmtán þúsund manns fari um Flugstöð Leifs Eiríkssonar daglega í sumar.
Á morgun byrjar breska lággjaldaflugfélagið að fljúga til Íslands og WOW Air í júní. Rætt er við Birki Hólm, forstjóra Icelandair, í greininni og eins Skúla Mogensen, einn aðaleiganda WOW Air, sem neitar að gefa upp hve mikil fjárfesting hans er í félaginu.
Í greininni er fjallað um hrunið á Íslandi og veikingu íslensku krónunnar sem hefur þýtt að mun ódýrara er fyrir útlendinga að versla á Íslandi en áður. Eins hafi eldgos haft sitt að segja við að vekja áhuga ferðamanna á að koma hingað.
EasyJet ætlar að fljúga til Íslands þrisvar í viku en um 50% af flugsætum félagsins til Íslands í sumar eru þegar seld. Forsvarsmenn félagsins verða varir við mikinn áhuga á Íslandi enda margir sem vilja upplifa eitthvað nýtt, eitthvað annað en borgir eins og Barcelona og París. Bæði easyJet og WOW ætla að fljúga til Íslands allt árið.