Flestir vilja flytja til Noregs

Flestar fyrirspurnirnar sem berast til Halló Norðurlanda tengjast Noregi.
Flestar fyrirspurnirnar sem berast til Halló Norðurlanda tengjast Noregi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Á næstunni munu Halló Norðurlönd og EURES, Evrópsk vinnumiðlun, halda upplýsingafundi fyrir þá sem hyggja á flutninga til Noregs, Svíþjóðar eða Danmerkur. Flestir leita upplýsinga um Noreg. „Noregur er langvinælastur en fyrir bankahrunið var Danmörk vinsælasta landið,“ segir Alma Sigurðardóttir, verkefnisstjóri hjá Halló Norðurlönd.

Alma segir suma þeirra sem sækja upplýsingafundina vera afar vel undirbúna og greinilegt sé að þeir hafi kynnt sér málin vel. Aðrir séu enn að velta flutningum fyrir sér og vilji einfaldlega skoða möguleikana. „Fólk er afar áhugasamt um allt sem tengist húsnæðis- og atvinnuleit. Einnig er fólk að velta fyrir sér félagslegum bótum af öllu tagi, svo sem barnabótum og húsaleigubótum. Þá koma líka stundum á námskeiðin einstaklingar sem eru að fara í nám. Þeir eru að spá í umsóknarferlinu, stúdentagörðum, sjúkratryggingum fyrir námsmenn o.fl. Spurningarnar eru mjög fjölbreyttar,“ segir Alma en ein sú algengasta snýr að því hvernig fólk á að bera sig að til að fá kennitölu í nýja landinu.

Upplýsingafundirnir, sem eru ókeypis, eru haldnir í húsnæði Norræna félagsins, Óðinsgötu 7. Á fimmtudaginn kl. 18 verður Danmörk í brennidepli og kl. 20:30 sama kvöld verður fjallað um flutninga til Noregs. 12. apríl kl. 18 eru þeir sem hafa áhuga á að flytja til Svíþjóðar boðnir velkomnir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert