Hafnar ásökunum um áróður

„Því hafna ég að sjálfsögðu enda var fjallað um þetta efni frá öllum hliðum og dregnir fram bæði kostir og gallar þessa hluta byggðastefnu ESB,“ segir Gísli Einarsson, ritstjóri sjónvarpsþáttanna Landans í Ríkissjónvarpinu, í yfirlýsingu þar sem hann svarar skrifum Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á vefsíðunni Evrópuvaktin í gær. Þar gagnrýndi Björn þáttinn sem sýndur var í gærkvöldi fyrir það að vera áróður fyrir aðild að Evrópusambandinu.

Gísli hafnar því meðal annars alfarið að umfjöllun um byggðastyrki Evrópusambandsins ætti ekki heima í Landanum: „Staðreyndin er sú að Landinn hefur ítrekað fjallað um byggðamál með ýmsum hætti. Hugsanleg aðild að ESB myndi væntanlega hafa umtalsverð áhrif hér á landi, ekki síst á landsbyggðinni. Það deila menn hinsvegar um hvort þau áhrif yrðu til góðs eða ills en hvort sem er, þá er það byggðamál!

Þá vísar hann því einnig á bug að Landinn sé kostaður af öðrum en RÚV eins og hann segir Björn halda fram: „Því er við að bæta að Landinn hefur ekki þegið neinar greiðslur af ESB, gjafir eða fyrirgreiðslur af neinu tagi, né hefur þættinum eða stjórnendum hans verið boðið neitt slíkt. Þetta hefði Björn líka fengið að vita hefði hann spurt. Mér þykir hann hinsvegar ekki hafa sýnt sannleikanum neina sérstaka forvitni en í staðinn fór hann þá leið að búa til sína eigin útgáfu af honum.“

Yfirlýsingu Gísla má lesa í heild í viðhengi við fréttina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert