Hagsmunir Íslands ekki seldir

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ekki stendur til að selja hagsmuni Íslands í makríldeilunni við Evrópusambandið og Norðmenn. Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í dag. Lagði hann ennfremur áherslu á að deilan og umsóknin um inngöngu í sambandið væru algerlega aðskilin mál.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagðist á fundinum telja að yfirlýsingar írskra og breskra ráðamanna um að grípa yrði til viðskiptaþvingana gegn Íslandi og Færeyjum vegna makríldeilunnar væru fyrst og fremst hugsaðar til heimabrúks. Í tilfelli skoskra forystumanna væri um að ræða innlegg í kröfur þeirra um sjálfstæði frá Bretlandi. Hugmyndin væri að sýna að þeim væri betur treystandi fyrir þessum málum en ráðamönnum í London. Hann sagði að í tilfelli Írskra ráðamanna væri því fyrir að fara hversu mikilvægur makríllinn væri fyrir þarlent efnahagslíf.

Steingrímur sagði alveg ljóst af hálfu íslenskra stjórnvalda að slíkar viðskiptaþvinganir væru brot á alþjóðasamningum sem Ísland og Evrópusambandið væru aðilar að og þar með talið samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Sagði hann að slíkt yrði ekki liðið. Þá væri ekki ásættanlegt að verið væri að blanda saman óskyldum málum eins og makríldeilunni og Evrópusambandsumsókninni.

Ennfremur yrði ekki liðið ef makríldeilan yrði notuð til þess að koma í veg fyrir að viðræður gætu hafist um sjávarútvegsmál vegna umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið enda legðu íslensk stjórnvöld áherslu á að sjávarútvegskafli viðræðnanna yrði opnaður sem allra fyrst.

Steingrímur var spurður að því á fundinum hvort hann hefði einhverjar sannanir fyrir því að makríldeilan væri að tefja fyrir viðræðunum um sjávarútvegskaflann og svaraði hann því til að hann hefði þær ekki. Hins vegar kæmi væntanlega í ljós á næstu vikum hvort deilan myndi gera það.

Þá var Össur inntur eftir því hvort hann teldi að það gæti haft einhver áhrif á viðræðurnar þegar Írar tækju við forsætinu innan Evrópusambandsins um næstu áramót og sagði Steingrímur að svo gæti orðið ef yfirlýsingar írskra ráðamanna væru meira en bara til heimabrúks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert