Könnuðust ekki við málið

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, …
Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í dag. mbl.is/Hjörtur

Talsvert var rætt um það á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í dag hvort Ísland væri í aðlögunarferli að Evrópusambandinu eða ekki. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra var gestur fundarins og þvertók hann fyrir það að slík aðlögun ætti sér stað. Sagði hann að gengið hefði verið þannig frá málinu að Ísland þyrfti ekki að fara í slíka aðlögun samhliða viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið eins og annars væri hefðbundið þegar ríki sæktu um inngöngu í sambandið. Um væri þannig að ræða sérstakt ferli í tilfelli Íslands.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, nefndi sem dæmi um að aðlögun væri þegar í gangi auglýsingu frá Ríkisskattstjóra sem birtist í dagblöðum nýverið þar sem auglýst var eftir starfsmanni til tímabundins verkefnis til þess að sjá um aðlögun tölvukerfa embættisins að kröfum Evrópusambandsins vegna umsóknarinnar um inngöngu í sambandið. Sagði hún þetta alls ekki eina dæmið en hins vegar væri ekki hægt að tala skýrar en í umræddri auglýsingu sem hún las upp úr á fundinum.

Spurði Ragnheiður Össur hvaða heimild væri fyrir því í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis, sem lagt var til grundvallar þegar sótt var um inngöngu í Evrópusambandið sumarið 2009, að stofnanir gætu ráðið starfmenn sérstaklega til þess að sjá um aðlögun að sambandinu vegna umsóknarinnar.

Össur svaraði því til að hann þekkti ekki til þessa máls. Ragnheiður ítrekaði spurningu sína síðar á fundinum hvaða heimild væri að finna fyrir slíkum ráðningum og sagðist Össur þá þegar hafa svarað spurningunni. Hann þekkti ekki til þessa máls og vildi því ekki tjá sig um það. Fyrr á fundinum hafði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðherra, svarað með sama hætti aðspurður. Að hann þekkti ekki málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert