Launamál Más undir dómara komið

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Ómar Óskarsson

Ákvörðun Kjararáðs um að skerða launagreiðslur til handa Má Guðmundssyni seðlabankastjóra var til umfjöllunar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, eða öllu heldur krafa Seðlabankans um að málinu yrði vísað frá. Lögmenn fluttu mál sín og búast má við að kveðinn verði upp úrskurður á næstu tveimur til þremur vikum.

Már höfðaði mál á hendur Seðlabankanum vegna þess að úrskurður Kjararáðs tók þegar gildi en ekki að loknum skipunartíma hans, sem er til fimm ára.  Már var skipaður í embætti í lok júní 2009 og tók við störfum í ágústmánuði sama ár. Á sama tíma samþykkti Alþingi lög sem felldu ákvörðun um laun seðlabankastjóra undir Kjararáð, og að dagvinnukaup mætti ekki vera hærra en föst laun forsætisráðherra.

Laun Más voru við ráðningu tæpar 1,6 milljónir króna en fóru niður í  tæpar 1,3 milljónir króna eftir ákvörðun Kjararáðs.

Lögmaður Seðlabanka Íslands, Karl Ólafur Karlsson, rökstuddi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag hvers vegna hann krefst þess að máli Más verði vísað frá dómi. Er það vegna þriggja þátta: rangs fyrirsvars, að kröfugerð sé áfátt og nauðsyn aðildar íslenska ríkisins að málinu.

Fyrirsvarið hjá ráðherra eða tveimur

Í málinu er formanni bankaráðs Seðlabankans stefnt til fyrirsvars fyrir bankann. Karl Ólafur vísaði í lög um meðferð einkamála þar sem segir að þegar stofnun í eigu ríkisins eigi aðild að máli skuli sá koma fram sem fyrirsvarsmaður sem hefur ákvörðunarvald um þá hagsmuni sem sakarefnið varðar.

Þá vísaði hann til laga um Seðlabanka Íslands en þar segir að bankaráð hafi eftirlit með því að bankinn starfi í samræmi við þau lög sem um starfsemina gilda. Þá eru talin upp sérstök verkefni í sextán liðum. Karl sagði ekki hægt að túlka neinn þeirra liða með þeim hætti að formanni bankaráðs væri ætlað að vera í fyrirsvari í máli sem því sem Már höfðaði.

Karl vísaði í framhaldinu til ákvæðis um yfirstjórn bankans, en þar segir að hún sé í höndum ráðherra og bankaráðs, eftir því sem greinir í umræddum lögum. Auk þess komi fram í lögunum, að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum Seðlabankans. Raunar kemur fram í lögunum að stjórn bankans sé að öðru leyti í höndum bankastjóra. Karl sagði að hugsanlega hefði borið að stefna honum til fyrirsvars, en eðli málsins samkvæmt sé hann vanhæfur.

Að því sögðu sagði Karl að rétt fyrirsvar væri í höndum efnahags- og viðskiptaráðherra. Þá kæmi til greina hvort einnig bæri að stefna fjármálaráðherra en hann fer með starfsmannamál ríkisins. Og málið sneri einmitt að starfsmannamálum.

Seðlabankinn sjálfstæð stofnun

Þessum rökum hafnaði Andri Árnason, lögmaður Más Guðmundssonar. Hann sagði rétt að beina bæri stefnu að íslenska ríkinu, en það ætti hins vegar ekki við þegar stofnun lýtur sjálfstæðri stjórn. Vísaði hann í lagareglur máli sínu til stuðnings. Því væri hvorki þörf á því né eðlilegt að ráðherra færi með fyrirsvar Seðlabankans.

Andri sagði að aðeins tveir menn kæmu til greina sem fyrirsvarsmenn í málinu: seðlabankastjóri og formaður bankaráðs. Jafnframt benti hann á viðurkennt væri, að velja mætti hvorum stefnt væri þegar við ætti.

Einnig benti Andri á að bankaráðið færi með launamála starfsmanna bankans, og hefði áður ákvarðað laun bankastjórans. Það staðfesti ennfremur kjarasamninga starfsmanna. Ráðherra kæmi hins vegar aldrei að ákvörðum um launamál, og öll þau atriði sem væru til skoðunar heyrðu ekki undir ráðherra.

Annar úrskurður hefði átt að vera undir

Karl Ólafur sagði einnig ljóst að kröfugerð í málinu væri áfátt. Í raun væri um tvo úrskurði Kjararáðs að ræða, almennan úrskurð og svo sérstakan úrskurð um launamál Más. Aðeins væri gerð krafa um ógildingu sérstaka úrskurðarins, en það gengi ekki upp því þeir væru órofa heild. Máli sínu til stuðnings vísaði hann til texta í almenna úrskurðinum þar sem segir að líta beri á almenna úrskurðinn og sérstaka sem eina heild.

Kveðnir voru upp á fjórða tug sérstakir úrskurðir og allir með sama hætti og sá sem Már krefst ógildingar á.  Karl sagði því ekki nægilegt að krefjast ógildingar á sérstaka úrskurðinum heldur þyrfti einnig að krefjast ógildingar á almenna úrskurðinum. Það væri ekki gert og því væri kröfugerðinni svo áfátt að vísa bæri málinu frá.

Færi svo að sérstakur úrskurður Kjararáðs væri ógiltur stæði hinn óhaggaður um allar grundvallarforsendur launakjara Más, sérstaklega hvað varðar launaþakið. Hendur Kjararáðs væru því bundnar af þeim úrskurði. Þá þyrfti Kjararáð að kveða upp úrskurð á nákvæmlega sömu forsendum.

Ekki deilt um annan úrskurð

Aftur var Andri ósammála Karli. Hann sagði að sér virtist sem hann hefði ekki í neinu kynnt sér dómkröfurnar. Már hefði í sjálfu sér ekkert við úrskurði Kjararáðs að athuga, og ekkert við almenna úrskurðinn. Málið snúist um gildistöku og hvort verið sé að skerða réttindi Más með ólögmætum hætti.

Andri sagði að með almenna úrskurðinum sé það látið í hendur Kjararáðs að ákveða hvenær sérstaki úrskurðurinn eigi að taka gildi. Már hafi enga hagsmuni af því að láta ógilda almenna úrskurðinn, heldur aðeins þann sem gildir gagnvart honum.

Hann segir enga sérstaka ákvörðun í almenna um gildistöku sérstaka úrskurðarins. Þar komi í raun fram að þá ákvörðun beri að taka í hverjum og einum úrskurði. Þá sé um hártogun að ræða, að líta beri á úrskurðina báða sem heild. Í málinu sé ekki deilt um hvaða launakjör sé verið að ákvarða.

Þá benti hann á að hvað aðra starfsmenn ræðir sem laun voru skert hjá fengu þeir næstum allir greidd eldri laun á meðan uppsagnarfrestur rann út, enda hafi þeir allir verið með ráðningarsamninga. Úrskurðurinn hafi því ekki tekið gildi hjá öðrum fyrr en að loknum uppsagnarfresti. Hann benti svo á, að ekki mætti skerða laun seðlabankastjóra á skipunartíma og því hefði verið brotið á réttindum Más.

Ríkið eigi hagsmuni í málinu

Síðasti þáttur kröfu Karls Ólafs um frávísun lýtur að aðild íslenska ríkisins að málinu. Hann sagði fyrrnefnda úrskurðinn lúta að lagagrundvelli um Kjararáð, og að kveðið sé um launaþak ríkisstarfsmanna í honum. Almenni úrskurðurinn snúi að launakjörum fjölmargra og hafi víðtækt gildi. Íslenska ríkið beri jafnframt ábyrgð á öllum skuldbindingum Seðlabankans, þar með launagreiðslum, og hafi því lögvarða hagsmuni af því að koma að málinu.

Hann sagði að þá niðurstöðu ótæka í málinu að Seðlabankinn eigi einn aðild að því. Hugsanleg beri bankanum að koma að málinu en það væri við hlið íslenska ríkisins, sem ekki verði sleppt í málinu. Það verði að fá færi til þess að gæta hagsmuna sinna.

Réttarsambandið milli Más og bankans

Þetta sagði Andri að væri langsótt. Ríkið hafi nefnilega enga hagsmuni í málinu. Seðlabankinn sé sjálfstæður launagreiðandi og það hafi sérstaka þýðingu. Bankinn greiði starfsmönnum laun af eigin tekjum.

Auk þess sagði hann, að ekki þyrfti að stefna Kjararáði enda hafi það enga hagsmuni, og verði að sæta því að þeirra ákvörðun sé endurskoðuð. Réttarsambandið sé beint; á milli bankastjórans og seðlabankans.

Þá sagði Andri, að þó svo íslenska ríkið hafi haft hag af því að lækka laun embættismanna þá hafi þurft að gera það í samræmi við lög. Ekki átti að svipta einn né neinn þeim réttindum sem þeir höfðu.

Í því samhengi vitnaði hann til nefndarálits vegna breytinga á lögum um Kjararáð. Þar var gert ráð fyrir því að réttindi yrðu ekki skert afturvirkt. Því sé fyllilega ljóst að dómstólum beri að fjalla um það hvort réttindi Más Guðmundssonar hafi verið skert þegar ákveðið var að skerða laun hans á meðan skipunartíma stóð.

Eins og áður segir mun úrskurður liggja fyrir á næstu vikum. Verði málinu vísað frá má búast við því að úrskurðurinn verði kærður til Hæstaréttar.

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur Þorkell Þorkelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert