Össur: Gæði umfram hraða

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, varð tíðrætt á fundi með utanríkismálanefnd Alþingis í dag um að ráðuneyti hans legði áherslu á gæði en ekki hraða í viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það væri lítið gagn að því að flýta sér óþarflega mikið og koma fyrir vikið heim með verri samning en ella.

Þar svaraði ráðherrann meðal annars fyrirspurn frá Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sem spurði hann um tímarammann vegna viðræðnanna og hvenær búast mætti við því að viðræðunum lyki.

Fyrr í umræðunum á fundinum hafði Össur sagt við Guðfríði að í sumum tilfellum væri það Íslendingum sjálfum að kenna að viðræðurnar hefðu gengið hægar en upphaflega hefði verið gert ráð fyrir, ekki síst í landbúnaðarmálum, og sagði þingmanninn væntanlega vita hvað við væri átt.

Þar var ráðherrann greinilega að skírskota til aðkomu Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að viðræðunum. Guðfríður Lilja spurði Össur hvort Jón hefði ekki einmitt verið að taka gæði fram yfir hraða en fékk ekkert svar við því frá ráðherranum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert