Lilja Mósesdóttir alþingismaður segir að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi tekið undir það sjónarmið á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun „að þjóðin byggi við gervilífskjör sem skerða yrði til að auka afgang á viðskiptum við útlönd“. Þennan afgang ætti að nota til þess „að hleypa froðueignum aflandskrónueigenda og kröfuhafa út úr hagkerfinu“.
Segir hún á Facebook-síðu sinni að þar hafi Már verið að taka undir með Helga Hjörvar, þingmanni Samfylkingarinnar, en með tali sínu um gervilífskjör væru þeir að tala niður gengi íslensku krónunnar.
„Veiking krónunnar mun auka verðbólgu og leiða til hækkunar stýrivaxta. Það er kominn tími á nýja ríkisstjórn, peningastefnu og seðlabankastjóra sem ver kjörin í landinu en ræðst ekki á þau í þágu erlendra kröfuhafa. Versni lífskjörin mun landflóttinn aukast!“ segir Lilja.