Féll dauðadrukkinn af hestbaki

Karlmaður á þrítugsaldri féll af hestbaki á höfuðborgarsvæðinu um helgina og var hann í kjölfarið fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni liggur ekki fyrir hver meiðsli hans hafi verið og ekki heldur hver tildrög slyssins voru. Hins vegar megi gera ráð fyrir að ástand mannsins hafi komið við sögu en hann hafi verið dauðadrukkinn.

„Hestamaðurinn var mjög viðskotaillur þegar átti að koma honum til hjálpar og þurfti að beita valdi til að koma knapanum á slysadeild. Hesturinn virðist hins vegar hafa sloppið með skrekkinn og var hann færður aftur í hesthúsið,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni og ennfremur minnt á að 5 þúsund króna sekt sé við því að stjórna eða reyna að stjórna hesti undir áhrifum áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert