„Framkvæmdir við Norðfjarðargöng áttu að hefjast fyrr en við Dýrafjarðargöng, enda er framkvæmdin talsvert brýnni,“ segir Kristján L. Möller í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Kristján bendir á að í viðauka við samgönguáætlun sem hann lagði fram á Alþingi 2008 og var samþykktur, var gert ráð fyrir að framkvæmdir við Norðfjarðargöng hæfust 2009.
„Veittar voru í það verk 600 mkr. árið 2009 og 1.700 mkr. árið 2010. Í sömu áætlun var sagt að stefnt væri að því að framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hæfust árið 2010. Veittar voru í það verk 100 mkr. árið 2009 og 900 mkr. árið 2010. Sem sagt, Norðfjarðargöngum var raðað framar en Dýrafjarðargöngum og sú forgangsröðun var samþykkt á Alþingi um vorið 2009.“
„Ég styð þá í forgangsframkvæmdunum á sunnanverðum Vestfjörðum á áður nefndum vegarköflum,“ segir Kristján, „enda unnið eftir þeirri forgangsröðun sem Vestfirðingar hafa lýst stuðningi við. Dýrafjarðargöng styð ég líka þegar að þeim kemur, eftir hinar miklu og brýnu framkvæmdir á sunnanverðum Vestfjörðum sem eru að byrja – loksins.“
Áskrifendur geta lesið greinina hér en greinin er á bls. 19 í Morgunblaðinu í dag.