Blái Naglinn er átak til vitundarvakningar um blöðruhálskrabbamein sem ætlað er að vekja karlmenn til umhugsunar um meinið og forvarnir gegn því. Hluti átaksins er heimildarmynd um Jóhannes V. Reynisson sem greindist með meinið í febrúar 2011 og hvernig hann vinnur úr því ásamt fjölskyldu sinni.
Þann 19. apríl 2012 hefst sala á Bláa Naglanum, fagurlega lökkuðum sex tommu nöglum um allt land til styrktar átakinu. Ágóði af sölu Bláa naglans rennur til Landspítala Háskólasjúkrahúss til að fjármagna kaup á línuhraðli fyrir geislameðferð á krabbameinsdeild LSH.
Tekið er á móti frjálsum framlögum í Íslandsbanka 537-14-405656, kt. 450700-3390 sem er fjárgæsluaðili átaksins.
Sérstök forsýning verður á myndinni fyrir velunnara í Eldborg, Hörpu þriðjudaginn 27. mars kl. 20. Þar koma einnig fram 220 félagar úr nokkrum karlakórum auk sinfóníuhljómsveitar undir stjórn Garðars Cortes, en það er sami fjöldi og greinist árlega með krabbamein í blöðruhálskirtli.
Snarbreytti mataræðinu
Jóhannes ákvað að takast á við krabbameinið á sinn eigin hátt, en hann greindist í febrúar í fyrra. Hann snarbreytti mataræði sínu, fór að kynna sér meðferðarmöguleika og fór í mikla sjálfsskoðun.
Hann myndaði öll samtöl við lækna til að geta fræðst betur um sjúkdóminn. Fljótlega vatt myndatakan upp á sig og Jóhannes fór að halda dagbók þar sem hann talaði beint í myndavél – gerði lifandi dagbók þar sem hann talar um tilfinningar og hvað hann væri að upplifa í baráttu sinni við krabbameinið.
Vill opna augu karlmanna
Jóhannes ákvað snemma í ferlinu að gera heimildamynd um sína persónulegu reynslu þar sem hans eina markmið var að opna augu karlmanna fyrir þessari tegund krabbameins sem dregur yfir 50 karlmenn til dauða á Íslandi á hverju ári.
Jóhannes fékk til liðs við sig Inga R. Ingason fyrrum framleiðanda fréttaskýringaþáttarins Kompáss sem sýndur var á Stöð 2 og Jóhannes Kr. Kristjánsson núverandi fréttamann Kastljóss RÚV til að vinna heimildarmyndina.
„Ég vil opna augu karlmanna fyrir þessum sjúkdómi sem er mesta feimnismál meðal kynbræðra minna á Vesturlöndum og þótt víðar væri leitað. Við, sem greinumst með þennan sjúkdóm þurfum allt í einu að fara að hugsa um risvandamál og það er mörgum mikið feimnismál. Eftir að hafa sjálfur farið í gegnum þetta eru skilaboðin mín til íslenskra karlmanna; Látið ekki karlmennskuna drepa ykkur.“