Segja forsætisráðherra fara rangt með

mbl.is/ÞÖK

Sjávarútvegsfyrirtækin reikna nú út áhrif frumvarps um stjórn fiskveiða og veiðigjald á sinn rekstur og munu útreikningarnir liggja fyrir á næstu dögum. LÍÚ segir að erfitt sé að sjá hvernig nýja frumvarpið gangi lengra en núverandi lög geri og segir forsætisráðherra hafa farið rangt með tölur um hagnað sjávarútvegsins.

Útreikningarnir verða birtir á heimasíðu LÍÚ jöfnum höndum, en LÍÚ fékk endurskoðunarfyrirtækið Deloitte til að meta áhrif frumvarpsins á greinina í heild sem er viðamikil verk en væntanlega verður hægt að birta upplýsingar eftir því sem vinnunni miðar áfram.

Í tilkynningu frá LÍÚ segir að mikið sérætt um að auðlindirnar verði sameign þjóðarinnar. „Rétt er að benda á að lítill munur er á fyrstu grein núverandi laga um stjórn fiskveiða og þeirrar sem birtist í nýja frumvarpinu eins og sést í undirstrikaða textanum. Það er því erfitt að sjá hvernig nýja frumvarpið gengur lengra en núverandi lög gera,“ segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni segir að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hafi farið rangt með á blaðamannafundinum í gær um að sjávarútvegurinn hagnaðist um 60 milljarða og greiddi 3 milljarða í skatta.

„Hið rétta er að framlegð sjávarútvegsins í heild var 60 milljarðar (EBIDA), en þá á eftir að greiða vexti af lánum, draga frá afskriftir og afborganir lána. Þegar það hefur verið dregið frá er hagnaður sjávarútvegsins um 33 milljarðar árið 2010 – skattar voru samanlagt 5,7 milljarðar sem skiptust þannig að auðlindagjaldið nam 3,5 og tekjuskatturinn 2,2 milljarðar.“

Þá segir að hafa beri í huga að enn sé uppsafnað tap í greininni sem gengur hratt á þessi misserin sem þýðir að það hlutfall sem útgerðin greiðir í tekjuskatt mun aukast á næstunni.

 Vefsíða LÍÚ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert