Sorgleg meðferð á hræi hvalsins

Búrhvalurinn í fjörunni við Klofningsrétt í Beruvík mældist 14,8 metrar.
Búrhvalurinn í fjörunni við Klofningsrétt í Beruvík mældist 14,8 metrar. Morgunblaðið/Hrefna Magnúsdóttir

„Það var magnað að sjá svona stóra skepnu í fjörunni en mjög sorglegt að sjá að það var búið að saga hluta kjálkans af,“ segir Guðbjörg Gunnarsdóttir, þjóðgarðsvörður í þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Tæplega 15 metra búrhval rak nýverið á land í fjörunni við Klofningsrétt í Beruvík.

Guðbjörg segist hafa farið fyrst í fjöruna í fyrradag þegar fréttist af tarfinum og var hann þá alveg heill. „Síðan frétti ég af því í gærmorgun að það væri búið að taka hluta af tönnunum og þegar við fórum þarna niður eftir sáum við að það var búið að saga framan af kjálkanum. Það var dapurleg sjón,“ segir hún. Tennur eru aðeins í neðri kjálka og var búið að saga fremsta hluta hans af þannig að við blasti opið sár. Ekki er vitað hver var að verki. Einhver verðmæti felast í tönnunum og eru þær t.a.m. notaðar við útskurð. „Svo frétti ég í dag að það er búið að fjarlægja restina af tönnunum,“ segir Guðbjörg. 

Líklega verður hvalurinn látinn rotna í fjörunni. „Það er enginn fjölfarinn ferðamannastaður í nágrenninu og engin byggð þannig að lyktin af honum ætti ekki að ónáða fólk. Þá getur það verið áhugavert út af fyrir sig að fylgjast með rotnuninni, þ.e. ef fólk þolir lyktina, en hvalinum gæti alltaf skolað út aftur,“ segir Guðbjörg. Fjaran í Klofningsrétt er í ríkislandi þannig að í raun er það ríkið sem á hræið. „Það hefðu verið talsverð verðmæti fólgin í því fyrir þjóðgarðinn að eiga kjálkann heilan með öllum tönnunum í, til að nota við fræðslu.“

Fyrst búið var að fjarlægja fjölda tannanna ákváðu þjóðgarðsverðirnir að taka fjórar tennur af ótta við að restin yrði tekin innan skamms. Verða þær m.a. notaðar til að aldursgreina hvalinn.

Að sögn Gísla Víkingssonar, hvalasérfræðings hjá Hafrannsóknarstofnun, eru nokkrir tugir tanna í búrhval. Hann segir að aldursgreiningin muni ekki liggja fyrir á næstunni.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert