Spurning ekki í samræmi við gildandi lög

Eignarrétti á landi og auðlindum er skipað í lögum.
Eignarrétti á landi og auðlindum er skipað í lögum.

Kjósendum í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs er gert að taka afstöðu til álitaefnis sem ekki er í neinu samræmi við gildandi lög í landinu. Kemur sú afstaða fram í athugasemd sem Landssamtök landeigenda og Landssamband veiðifélaga hafa sent landskjörstjórn og framsend hefur verið stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.

Ein spurningin sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur til að verði lögð fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu lýtur að því hvort náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign í nýrri stjórnarskrá.

Samtökin benda á að í lögum er skýrt kveðið á um hvernig eignarrétti á landi og auðlindum er skipað. Það eigi einnig við auðlindir innan netlaga. Í lögum sé eignarréttur skýrt afmarkaður og verði ekki afmáður með þeim hætti sem leiða megi af spurningunni. Þá er vakin athygli á að eignarréttur á þeim auðlindum sem lögin taka ekki til er ótvírætt á hendi íslenska ríkisins, samkvæmt þjóðlendulögum.

„Undirritaðir harma þau óvönduðu vinnubrögð sem nú eru viðhöfð við endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins og teljum það lágmarkskröfu að borin sé tilhlýðileg virðing fyrir landslögum og ákvæði í gildandi stjórnarskrá um vernd og friðhelgi eignarréttar við þá vinnu,“ segir í bréfi formanna samtakanna til landskjörstjórnar. Þeir fara fram á að þessara sjónarmiða sé gætt við mat á þeim spurningum sem kunna að verða lagðar fyrir í þjóðarkvæðagreiðslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert