Talin hafa selt afurðir á undirverði

mbl.is

Í Kastljósi RÚV í kvöld, var því haldið fram að Samherji hafi um árabil selt erlendu dótturfyrirtækis sínu afurðir á undirverði, en eftirlit með þessu virðist vera lítið sem ekkert.  

Í þættinum var fjallað um meinta undirverðlagningu dótturfélags Samherja í Þýskalandi á sjávarafurðum.

Fyrirspurn Kastljóss leiddi til umfangsmikillar rannsóknar embættis Sérstaks saksóknara, Seðlabankans og tollstjóraembættisins og er allir útflutningur Samherja nú til rannsóknar. 

Í Kastljósi kom fram að svo virtist sem afurðirnar færu undirverðlagðar út úr landinu, en samkvæmt skatta- og samkeppnislögum eiga viðskipti tengdra aðila að fara fram á viðurkenndu verði. Eftirlit með útflutningi sjávarafurða mun vera lítið hvað þetta varðar.

Í umfjöllun Kastljóss var dreginn fram sá munur sem getur verið á afurðaverði innlendra og erlendra fiskiskipa og einnig skiptir máli hvar aflanum er landað, en skip sem landa til eigin útgerðar fá minna fyrir afurðir sínar en skip sem landa til fiskmarkaða. Þá kom fram að meðalverð á loðnu var allt að 50% hærra í fyrra til erlendra skipa en til þeirra íslensku. 

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, sagði í Kastljósi það fyrirkomulag að sama fyrirtækið hefði á sinni könnu veiðar, vinnslu og sölu afurða hafa  styrkt stöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Spurður að því hvort þetta veitti mönnum ekki tækifæri til að greiða lægra verð fyrir fiskinn svaraði hann því neitandi.  „Við getum haldið á allri keðjunni, veiðum, vinnslu og sölu og þetta er það sem við erum öfundaðir af víða,“ sagði Friðrik.

Í Kastljósi kom fram að samningar væru gerðir á milli áhafna og útgerða um verð á afurðum, en sjómenn teldu það verð helst til lágt í samanburði við það sem gerðist annars staðar á Norðurlöndunum. 

Kastljós leitaði svara hjá Verðlagsstofu, en þau fengust ekki. Vitnað var í bréf frá forstjóra stofunnar, þar sem mælst var til þess að málinu væri haldið frá opinberri umfjöllun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert