Félagsfundur Dögunar – samtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði – mótmælir harðlega frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og krefst þess að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnunarkerfisins.
Frumvarpið tryggir núverandi handhöfum aflaheimilda forgangsrétt að auðlindinni til 40 ára, segir í tilkynningu frá Dögun.
„Hvorki er að sjá að frumvarpið sé í samræmi við þau loforð sem þingmenn ríkisstjórnarflokkanna gáfu kjósendum, né þau réttlætis- og sanngirnissjónarmið sem getið er um í stjórnarsáttmála sömu flokka. Ekki svarar það heldur gagnrýni Mannréttindanefndar Sameinuðuþjóðanna á óréttmæti og ójafnræði kvótakerfisins, miðað við kynningu á frumvarpinu 26.3. 2012.
Einnig ályktar félagsfundur Dögunar að allur fiskur skuli seldur á fiskmarkaði. Ekkert er um slíkt í frumvarpinu,“ segir enn fremur í tilkynningu.