Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, segist ætla að leggja fram breytingartillögu við tillögu meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillaga Vigdísar felur í sér að þjóðin verði spurð hvort hún vilji að viðræðum við ESB um aðild að sambandinu verði haldið áfram.
Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar stefnir að því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs í sumar samhliða forsetakosningum. Vigdís ætlar að leggja fram tillögu um að nýrri spurningu verði bætt við þannig að þjóðin verði spurð hvort hún vilji að viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði haldið áfram.
Forseti Alþingis gerði athugasemdir við ræðu Vigdísar á þingfundi í dag og benti henni á að þingsköp gerðu ekki ráð fyrir að þingmenn mæltu fyrir breytingartillögum í fyrstu umræðu. Slíkar tillögur ættu að koma fram við aðra umræðu.