Fékk ekkert SMS-skeyti

Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins, sagði á Alþingi í morgun að hún vildi láta fara fram rannsókn á því hvers vegna hún hefði ekki fengið SMS-skeyti í nótt um að atkvæðagreiðsla væri fyrirhuguð um tillögu meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Siv sagði að það væri venja á Alþingi að þegar greiða ætti atkvæði á þingfundi á óvenjulegum tíma að senda SMS-skeyti á þingmenn þannig að þeim gæfist tækifæri til að mæta til atkvæðagreiðslu. Ekkert slíkt skeyti var sent í nótt. Siv sagðist alltaf hafa lagt áherslu á að greiða atkvæði á Alþingi, enda væri það skylda alþingismanna að gera það. Hún sagðist ekki sætta sig að vera svipt atkvæðisrétti með þessum hætti.

Eygló Harðardóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins, tók undir gagnrýni Sivjar. Hún sagðist í allan gærdag hafa fylgst með umræðum um þetta mál. Í umræðunum hefðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins lagt áherslu á mikilvægi vandaðra vinnubragða í þessu máli. Hún sagði að það hefði verið lítið mál fyrir Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, sem fór fram á atkvæðagreiðsluna, að láta sig vita að farið yrði fram á atkvæðagreiðslu um nóttina. Eygló sagði þessa framkomu Ragnheiðar Elínar vera „mikill dónaskapur við samþingmenn sína og svo sannarlega ekki í samræmi við orðræðu hennar eigin þingmanna og Alþingi ekki til sóma.“

Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði uppnámið í nótt vera ömurlegan vitnisburð sumra flokka sem hefðu sýnt klækjabrögð sem væru með hreinum eindæmum.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, minnti á að hluti þingheims hefði fyrr í vetur reynt að koma í veg fyrir að þingmál fengi að koma á dagskrá með frávísunartillögu. „Ég bið þingmenn að tala varlega þegar þeir tjá sig um klækjabrögð eins þingflokks umfram annan.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert