Kvöldfundur samþykktur á Alþingi

mbl.is/Sigurgeir

Samþykkt var á Alþingi rétt í þessu að kvöldfundur fari fram á Alþingi í dag og þess verði freistað að ljúka fyrstu umræðu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytt fiskveiðistjórnunarkerfi. Kvöldfundur var samþykktur með 28 atkvæðum gegn 12 atkvæðum. Einn greiddi ekki atkvæði.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi atkvæðagreiðsluna og sagði ljóst að reynslan af kvöldfundum væri ekki góð. Sagðist hún því ætla að greiða atkvæði gegn tillögu um kvöldfund þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu.

Lilja Mósesdóttir alþingismaður gerði einnig grein fyrir atkvæði sínu og mótmælti því að þingmenn hefðu ekki fengið lengri tíma til þess að kynna sér frumvarpið áður en það yrði tekið til umræðu í þinginu. Af þeim sökum greiddi hún atkvæði gegn því að fram færi kvöldfundur.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagðist í sinni atkvæðaskýringu vonast til þess ef stjórnarliðar vildu kvöldfund að þeir sætu hann þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert