Mótmæla fjarveru Steingríms

mbl.is/Hjörtur

Stjórnarandstöðuþingmenn hafa gagnrýnt harðlega á Alþingi í dag undir liðnum fundarstjórn forseta að Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skuli ekki mæla fyrir frumvarpi ríkisstjórnarinnar að breyttum lögum um fiskveiðistjórnun en ráðherrann er nú staddur í Kanada.

Í stað Steingríms mun Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mæla fyrir frumvarpinu sem starfandi sjávarútvegsráðherra. Hefur það verið gagnrýnt að Steingrímur skuli ekki vera sjálfur viðstaddur til þess að mæla fyrir jafn stóru máli og endurskoðun á lögum um fiskveiðar.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði gagnrýnina vera í anda gamalla fordóma og sakaði sjálfstæðismenn um að telja Katrínu ekki hæfa til þess að mæla fyrir frumvarpinu. Katrín hefði komið að því að semja frumvarpið. Sagðist hann hafa áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum og spurði hvort það væri ekki nóg fyrir hann að verða sér til skammar einu sinni á sólarhring.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Össur hvort honum myndi ekki þykja það einkennilegt ef einhver annar en hann legði fram stórt mál sem heyrði undir hans ráðuneyti og að valinn væri ennfremur dagur til þess þegar ráðherrann væri staddur erlendis.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þetta sýna meðal annars að varhugavert væri að sami maðurinn gegndi of mörgum ráðherraembættum. Núna þyrfti efnahags- og viðskiptaráðherrann að vera í Kanada á meðan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þyrfti að vera á Alþingi.

Gunnar Bragi Sveinnsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, velti því fyrir sér hvað það væri sem væri svo mikilvægt að Steingrímur þyrfti að vera í Kanada í stað þess að mæla fyrir sínu helsta máli. „Hann er kannski að ná í dollara fyrir okkur,“ sagði Gunnar og brosti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert