Starfsemi Íslenskrar ættleiðingar er ógnað, en mikið skortir upp á að fjárveitingar frá stjórnvöldum séu viðunandi og félagið getur því ekki sinnt þeirri starfsemi sem því er ætlað að sinna.
Þetta kemur fram i tilkynningu sem stjórn félagsins sendi frá sér eftir aðalfund þess.
Þar segir að enginn ágreiningur hafi verið á milli aðila um þau verkefni sem ættleiðingarfélaginu sé falið að annast með vísan til laga og reglugerða, né sé uppi ágreiningur um hvað það kostar að sinna þeim verkefnum.
„Framlög til ættleiðingarfélagsins eru í engu samræmi við þennan kostnað. Innanríkisráðherra lagði fram minnisblað fyrir ríkisstjórnarfund hinn 9. mars 2012 þar sem málefni ættleiðingarfélagsins voru rædd. Ekkert kom út úr þeim fundi. Blasir því við að ættleiðingarfélagið þurfi að hætta við verkefni sem getur sett tilvist þess og hagsmuni félagsmanna í mikla óvissu. Þjónusta til félagsmanna verði skorin niður og ættleiðingarsambönd við erlend ríki sett í hættu.“
Félagsfundurinn skorar er á innanríkisráðherra og ríkisstjórnina að tryggja að Íslenskri ættleiðingu verði kleift að uppfylla skyldur sínar, en félaginu hafi verið falin framkvæmd á fjölmörgum þáttum Haag-samningsins um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu á milli landa. „Jafnframt fer fundurinn fram á að innanríkisráðherra gefi án frekari tafa skýr svör um hvort af fjárveitingu verði í samræmi við drög að þjónustusamningi.“