Tal um málþóf óskiljanlegt

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, á Alþingi ásamt fleiri þingmönnum.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, á Alþingi ásamt fleiri þingmönnum. mbl.is/Ómar

Þingmenn Framsóknarflokksins töfðu alls ekki stjórnarskrármálið í umræðum á neinn hátt í gær og nótt. Þingmenn flokksins tóku þátt í eðlilegum umræðum um málið í gærkvöldi eftir að þingmenn stjórnarflokkanna óskuðu eftir kvöldfundi um málið sem fæstir þeirra sátu,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, í yfirlýsingu til fjölmiðla. Allt tal um málþóf sé því óskiljanlegt.

„Í samræmi við þessa afstöðu stóðu framsóknarmenn alls ekki í vegi fyrir því þegar óskað var eftir að þingfundur gæti hafist fyrr en áætlað var í morgun til að atkvæðagreiðslan gæti farið fram,“ segir Gunnar ennfremur. Hann bendir ennfremur á að forgangsröðunin á málefnum ríkisstjórnarinnar sé á ábyrgð stjórnarflokkanna. Þeir geti ekki kennt framsóknarmönnum um það að meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi lagt málið seint inn í þingið til umræðu.

Yfirlýsingin í heild:

Vegna yfirlýsinga þingmanna stjórnarflokkanna um þingmenn Framsóknarflokksins vegna atkvæðagreiðslu um stjórnarskrármálið í nótt skal eftirfarandi koma skýrt fram:
 
Þingmenn Framsóknarflokksins töfðu alls ekki stjórnarskrármálið í umræðum á neinn hátt í gær og nótt. Þingmenn flokksins tóku þátt í eðlilegum umræðum um málið í gærkvöldi eftir að þingmenn stjórnarflokkanna óskuðu eftir kvöldfundi um málið sem fæstir þeirra sátu. Allt tal um málþóf af hálfu framsóknarmanna er því óskiljanlegt.
 
Framsóknarmenn hvöttu í nótt til þess að atkvæðagreiðslan sem óvænt var óskað eftir færi frekar fram strax í morgun, enda myndi það ekki seinka nefndarvinnu við málið svo nokkru skipti þótt atkvæðagreiðslan færi fram næsta dag í stað nætur.
 
Í samræmi við þessa afstöðu stóðu framsóknarmenn alls ekki í vegi fyrir því þegar óskað var eftir að þingfundur gæti hafist fyrr en áætlað var í morgun til að atkvæðagreiðslan gæti farið fram.
 
Ríkisstjórnarflokkunum í samráði við forseta Alþingis hefði verið í lófa lagið að breyta dagskrá Alþingis í dag til að síðari umræða gæti farið fram um málið. Þess í stað hafa ríkisstjórnarflokkarnir ákveðið að á dagskrá þingsins í dag skuli ræða um ný fiskveiðistjórnunarfrumvörp sem öllum er ljóst að verða ekki afgreidd í flýti. Það er öðru fremur þessi forgangsröðun mála á dagskrá þingsins sem nú veldur tímahraki við afgreiðslu stjórnarskrármálsins.
 
Framsóknarmenn hafa ekki staðið í vegi fyrir breytingum á stjórnarskrá og munu ekki gera það ef skynsamlega er að þeim staðið.
 
Staðreyndin er sú að það hvort atkvæðagreiðsla fór fram í nótt eða í morgun skiptir sáralitlu. Upphlaup ríkisstjórnarflokkanna er óskiljanlegt vegna þess að það eru þeir sem ráða dagskrá Alþingis. Þeim er því fullfrjálst að taka stjórnarskrármálið til annarrar umræðu í dag og ljúka afgreiðslu þess á morgun eins og gert hefur verið ráð fyrir. Það skal ítrekað að framsóknarmenn munu ekki standa í vegi fyrir því að umræða fari fram.
 
Forgangsröðunin á málefnum ríkisstjórnarinnar er á ábyrgð stjórnarflokkanna. Stjórnarflokkarnir geta ekki kennt framsóknarmönnum um að meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur málið svo seint inn í þingið til umræðu. Þeir geta heldur ekki kennt framsóknarmönnum um að fiskveiðistjórnun tekur allan tíma Alþingis í dag og hugsanlega fram á morgundaginn þegar önnur mál eru í tímahraki. Hvort tveggja er algerlega á valdi stjórnarflokkanna sjálfra.  
 
Gunnar Bragi Sveinsson,
þingflokksformaður framsóknarmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert