TR borgar alltaf meirihluta kostnaðar

mbl.is/Árni Torfason

Ríkissjóður greiðir í öllum tilvikum meirihluta kostnaðar fyrir hvert hjúkrunarrými þar sem íbúi greiðir aldrei meira en 311.741 krónur á mánuði en meðalgjald sem hjúkrunarheimili fær fyrir hvern íbúa, samkvæmt reglugerð,  er 689.417 kr. á  mánuði.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Tryggingastofnun ríkisins í tilefni af umræðu í fjölmiðlum um þátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum í dvalargjaldi.

„Þátttaka í dvalargjaldi fer eftir tekjum íbúa og er reiknuð út frá tekjuáætlun sem lífeyrisþeginn ber ábyrgð á sé rétt. Til tekna teljast allar skattskyldar tekjur s.s. launa-, lífeyrissjóðs-,  og fjármagnstekjur. Eignir eins og verðbréf eða inneignir á bankareikningum teljast ekki til tekna heldur eingöngu sú ávöxtun sem eignirnar mynda. Ef heildartekjur íbúa eru hærri en 65.005 kr. á mánuði eftir skatta þurfa þeir að greiða fyrir að búa á heimilinu með þeim tekjum sem umfram eru. Enginn þarf þó að greiða meira en 311.741 kr. á mánuði á árinu 2012, en það gera þeir sem eru með að lágmarki 376.746 kr. í tekjur eftir skatta. Aðeins þeir sem hafa náð 67 ára aldri taka þátt í greiðslu dvalargjalds.

Þeir einstaklingar sem hafa engar tekjur eða lágar geta átt rétt á vasapeningum. Vasapeningar eru tekjutengdir og geta að hámarki orðið 46.873 kr. á mánuði á árinu 2012.

Við útreikning á þátttöku í dvalarkostnaði eru bornar saman útreikningsreglur eins og þær giltu árið 2006, í mars 2008 og eins og þær eru á þessu ári. Sú leið er valin sem sýnir lægstu kostnaðarþátttöku. Slíkur samanburður fer fram til ársloka 2012.

Meðalgjald sem hjúkrunarheimili fær fyrir hvern íbúa, samkvæmt reglugerð,  er 689.417 kr. á  mánuði  á árinu 2012.  Það er því ljóst að í öllum tilvikum greiðir ríkissjóður meirihluta kostnaðar fyrir hvert hjúkrunarrými þar sem íbúi greiðir aldrei meira en 311.741 kr.

Þegar um dvalarrými er að ræða fær heimili  311.741 kr. á mánuði fyrir hvern íbúa.  Það er því í einhverjum tilvikum að íbúi greiðir að fullu fyrir sína búsetu, án aðkomu ríkissjóðs.

Samkvæmt lögum eru daggjöld til hjúkrunarheimila greidd fyrirfram. Tryggingastofnun greiðir full daggjöld til heimilanna sem innheimta síðan hlut vistmanna.  Hafi heimilið ekki endurgreitt þátttökugjaldið fjórum mánuðum síðar er það dregið frá greiðslum til heimilanna.  Þegar um dvalarrými er að ræða er þátttökugjaldið dregið frá strax og aðeins hlutur hins opinbera greiddur.

Sömu reglur um þátttökugjald gilda fyrir þá sem fá vistunarmat vegna búsetu á hjúkrunarrými á heilbrigðisstofnun og þá sem dvelja lengur en 30 daga samfellt á sjúkrastofnun sem er á föstum fjárlögum.

Lífeyrisþegi sem dvelur lengur en 30 daga samfellt á sjúkrastofnun sem er á föstum fjárlögum hættir að fá bætur frá Tryggingastofnun ef dvölin hefur varað lengur en sex mánuði samtals á síðustu 12 mánuðum.  Frá þeim tíma getur viðkomandi einstaklingur þurft að taka þátt í að greiða fyrir dvölina á sjúkrastofnuninni og gilda sömu reglur um útreikning á dvalargjaldi og fyrir þá sem búa á dvalar- eða hjúkrunarheimili,“ segir í tilkynningu frá TR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert