Yfirvinnutímum sem leikskólakennarar Reykjavíkurborgar hafa fengið borgaða fyrir að borða hádegismat með börnum fækkar úr 10 í 7,5 um mánaðamótin. Mikil óánægja er vegna þessa og dæmi eru um að leikskólakennarar hafi sagt upp störfum og í það minnsta fimm munu bætast í þann hóp eftir helgi.
Þetta segir Stella Marteinsdóttir, leikskólakennari við leikskólann Hof, sem situr jafnframt í stjórn Reykjavíkurdeildar Félags Leikskólakennara. Hún segir fimm leikskólakennara þegar hafa sagt upp en um 33% starfsmanna leikskóla Reykjavíkurborgar eru menntaðir sem slíkir og nær breytingin einungis til þeirra. Leikskólakennarar, sem funduðu um málið í gær, vonast til að borgaryfirvöld muni hætta við að skerða yfirvinnuna sem mun að endingu verða engin.
Borgaryfirvöld hafa sagt að þetta hafi alltaf legið fyrir frá því að samið var við leikskólakennara síðastliðið vor en því eru leikskólakennarar ósammála.