Nauðungarvistun geðsjúkra vandmeðfarin

Landspítali Kleppi. Kleppur var opnaður árið 1907.
Landspítali Kleppi. Kleppur var opnaður árið 1907. Mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hlutfall nauðungarvistana á geðsjúkrahúsum á Íslandi er innan við 4% af innlögnum, eða u.þ.b. 80 tilfelli á ári. Sums staðar á nágrannalöndum okkar er hlutfall nauðungarinnlagna hins vegar á bilinu 20-40% og hærra hlutfall þekkist. Þá hafa fjötrar ekki verið notaðir hér í 79 ár, ólíkt nágrannalöndunum. Engu að síður er ýmislegt sem betur má fara í mannréttindum geðsjúkra hér á landi.

Í gegnum söguna hefur ítrekað verið brotið á mannréttindum geðsjúkra. Nauðungarvistanir, þar sem sjálfráða fólk er lagt inn á sjúkrahús gegn vilja sínum, eru enn til staðar þegar nauðsyn þykir til, og heimild er fyrir þeim í lögræðislögum, en mun sjaldnar er gripið til þess úrræðis hér á landi en víðast hvar annars staðar. Nauðungarvistun er vandmeðfarið úrræði og telja sumir þeir sem fyrir því hafa orðið að bæta megi verklagið. 

Síðustu spennitreyjurnar brenndar 1933

Páll Matthíasson, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala, var frummælandi á fundi sem innanríkisráðuneytið stóð fyrir í morgun, um mannréttindi geðsjúkra. Páll segir að margt sé jákvætt í geðheilbrigðismálum hér á landi, ekki síst sú staðreynd að einungis 3,7% innlagna á geðsjúkrahús séu gerðar með valdi. „Á Norðurlöndunum er þetta hlutfall milli 15-30% og sumstaðar í Bretlandi er það yfir 70% allra innlagna. Þannig að það er mjög jákvætt að hér sé fólk tilbúnara að leggjast sjálfviljugt inn.“

Sjálfur hefur Páll tvisvar verið kallaður á norrænar ráðstefnur undanfarið ár til að greina frá því hvernig Íslendingar nái því að reka geðheilbrigðiskerfi með svo lágu hlutfalli nauðungarvistana og ekki síður, án þess að beita fjötrunum. „Víða um heim eru fjötranir enn notaðar, ólar, bönd og hlekkir. Danir eru enn að berjast við að stöðva fjötranir en geta ekki. Á Íslandi er slíkt ekki notað í geðþjónustu og hefur ekki verið notað síðan árið 1933, þegar Helgi Tómasson, þáverandi yfirlæknir Klepps, brenndi þær ólar og spennitreyjur sem til voru,“ segir Páll. 

Sár fjölskyldunnar lengi að gróa

Sem áður segir er þó enn atriði sem betur mega fara þegar kemur að mannréttindum geðsjúkra á Íslandi. Árið 2004 kom hingað til lands nefnd á vegum Evrópudómstólsins um varnir gegn pyntingum og ómannúðlegri meðferð á föngum og geðsjúkum (CPT). Samkvæmt umsögn nefndarinnar var staðan almennt góð en þó voru gerðar nokkrar athugasemdir sem unnið hefur verið markvisst að  að bæta úr síðustu ár, að sögn Páls.

Má þar helst nefna að athugasemd var gerð við staðsetningu réttargeðdeildar, sem var flutt á Klepp nú nýlega. Gerð var athugasemd við að sjúkraþjálfun stæði ekki öllum sjúklingum til boða, sem hefur verið lagað, og loks að við geðdeildina á Hringbraut væri ekki afgirtur garður þar sem fólk í nauðungarvistun gæti farið út, en úr því var bætt nú í janúar.

Páll segir hins vegar að það sem skoða þurfi nánar sé verklagið í kringum nauðungarvistun. Gjarnan sé það svo að fjölskylda hins veika þurfi beinlínis að óska eftir nauðungarvistun og reynslan sýni að það skilji oft eftir sár í fjölskyldum sem eru lengi að gróa. Þetta þurfi að laga. Í lögræðislögum sé mjög skýr heimild til þess að ferlið farið í gegnum félagsþjónustu sveitarfélaga, þannig að fjölskyldan þurfi ekki með beinum hætti að koma að því og það vinnulag megi bæta frekar.

Niðurlægjandi nauðungarvistun

Undir þetta tekur Héðinn Unnsteinsson, sérfræðingur í geðheilbrigðismálum, sem einnig flutti erindi á fundi innanríkisráðuneytisins í morgun. Héðinn leggur áherslu á að nauðungarvistun á geðsjúkrahúsi sé frelsissvipting og því mjög róttækt inngrip. Hann bendir á að í flestum löndum séu lög um nauðungarvistun byggð á s.k. skaðalögmáli John Stewart Mills, sem felst í því að eina ástæðan, í siðuðu samfélagi, sem réttlætt geti valdbeitingu gegn einstaklingi, sé að slíkt komi í veg fyrir skaða annarra. Þetta sé hinsvegar mjög huglægt mat og einstaklingurinn sjálfur sé kannski ekki sammála því að hann sé skaðlegur sjálfum sér eða öðrum.

„Þetta er alltaf huglægt og þess vegna er svo vandmeðfarið hvernig þessu er beitt, sérstaklega aðdragandinn, en líka úrvinnslan og eftirfylgnin. Því ef þú vilt þetta ekki, þá berstu á móti, og jafnvel þótt svona valdbeiting sé með ást og umhyggju í huga, þá er þetta engu að síður áfall fyrir þann sem í lendir. Það er áfall að vera tekinn með valdi, því fylgir oft niðurlæging og vanvirðing. Þá er nauðsynlegt að sinna einhvers konar áfallahjálp eftir á, þegar bráðasti sjúkdómurinn er liðinn hjá, til þess að þetta úrræði verði ekki til þess að auka enn á vanmátt,“ segir Héðinn.

Samskiptarof við fjölskylduna

Héðinn segir að eins og fyrirkomulagið er yfirleitt núna, þar sem aðstandendur þurfi að koma beint að aðgerðinni í samvinnu við lækni, getið það orsakað samskiptarof í fjölskyldum. Það geti orðið til þess að draga verulega úr lífsgæðum til langs tíma, jafnvel meira en sjúkdómurinn sjálfur.

„Þess vegna þurfum við að skoða þessar verklagsreglur og hvernig hægt er að breyta þessu. Hvort hægt sé að setja upp teymi félagsþjónustunnar og spítalans þannig að fjölskyldan þurfi ekki að taka þátt í því þegar einstaklingur er sviptur frelsi sínu.“

Héðinn segir að fundurinn á vegum innanríkisráðuneytisins í morgun hafi verið jákvæður og umræðurnar mjög þarfar. „Því þetta er stórt réttindamál, og mjög vandmeðfarið.“

Páll Matthíasson framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans.
Páll Matthíasson framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans. Mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
Héðinn Unnsteinsson hefur unnið að geðheilbrigðismálum í áraraðir, m.a. hjá …
Héðinn Unnsteinsson hefur unnið að geðheilbrigðismálum í áraraðir, m.a. hjá Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert