„Þarna upplýsir [utanríkisráðherra] það að sjávarútvegsráðherra fór með rangt mál þegar hann sagði samninginn hafa runnið út,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, á Alþingi í dag eftir að Össur Skarphéðinsson staðfesti að samningi um aðalsamningamann Íslendinga í makríldeilunni hefði verið sagt upp.
Ragnheiður Elín spurði Össur út í orð Steingríms J. Sigfússonar sem í samtali við mbl.is sagði að skýringin á því að Tómas H. Heiðar, aðalsamningamaður Íslendinga í makríldeilunni, væri hættur sem slíkur, væri sú að samningur hefði verið í gildi á milli utanríkisráðuneytisins og sjávarútvegsráðuneytisins um lán á Tómasi til sjávarútvegsráðuneytisins vegna makríldeilunnar. Sá samningur hefði runnið út fyrir skömmu.
Össur sagði rétt að samningur hefði verið á milli ráðuneytanna frá því í apríl 2009, um að tiltekinn hluti starfskrafta Tómasar yrði nýttur af hálfu sjávarútvegsráðuneytisins. Hins vegar hefði komið í ljós að sá hluti vinnugetu hans var miklu meiri en um var samið, og á stundum yfir 100% en samið var um 30%. Um væri að ræða eina þjóðréttarfræðing utanríkisráðuneytisins og það þyrfti á kröftum hans að halda.
Þá sagði Össur að samningnum hefði verið sagt upp í nóvember eða desember og uppsögnin tekið gildi 1. febrúar sl.
Ragnheiður Elín sagðist ekki sammála þessari aðferðafræði, að skipta um hest í miðri á, í deilu sem væri jafn viðkvæm. Össur benti þá á að í sjávarútvegsráðuneyti mætti finna einn reyndasta samningamann Íslands þegar kæmi að deilum um uppsjávarfiskveiðar.