„Umræðan um framtíðarfyrirkomulag peninga- og gjaldmiðismála þarf að fara fram af yfirvegun. Á heildina litið hefur krónan reynst okkur Íslendingum vel eftir hrun. Aðlögun hagkerfisins hefur orðið hraðari vegna hennar og útflutningsgreinarnar notið góðs af falli hennar sem hefur stutt við batann,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, meðal annars í ræðu sem hann flutti á ársfundi Seðlabanka Íslands en ræðan var spiluð af myndbandsupptöku þar sem ráðherrann er staddur í Kanada.
„Ef Íslendingar hefðu verið aðilar að evrunni við núverandi aðstæður eru miklar líkur á því að dekkstu spár manna um þróun atvinnuleysis á útmánuðum 2008 hefðu ræst og hér væri yfir 20% atvinnuleysi,“ sagði Steingrímur ennfremur. Hann sagði það þó ekki breyta því að Íslendingar stæðu frammi fyrir stórum verkefnum og ýmsum veigamiklum spurningum þegar kæmi að gjaldmiðlamálum þjóðarinnar.
„Stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir á þessu sviði er afnám gjaldeyrishafta. Seðlabankinn hefur lagt fram áætlun um afnám hafta sem nú er unnið eftir og mátti á dögunum sjá árangur í þeirri áætlun þegar niðurstaða kom í gjaldeyrisútboð hinn 15. febrúar. Umframeftirspurn var í útboðinu og skilaði það yfir 30 mia. kr. í gjaldeyri og ríkisskuldabréf,“ sagði Steingrímur.