Vilja þak á hækkun verðtryggingar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingflokkur framsóknarmanna hefur lagt fram frumvarp til laga um þak á hækkun verðtryggingar og lækkun vaxta. Frumvarpinu verður dreift á Alþingi í dag. Markmið frumvarpsins er að draga úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi, minnka vaxtakostnað og skuldsetningu heimilanna og tryggja að ábyrgðin af baráttunni við verðbólguna hvíli ekki aðeins á herðum neytenda í samfélaginu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Framsóknarflokknum.

 Það er mat flutningsmanna að breytt fyrirkomulag verðtryggingar á Íslandi sé nauðsynlegt til að koma á meiri stöðugleika.  Allt annað er ávísun á áframhaldandi þjóðhagslegt ójafnvægi og uppgjöf í baráttunni við verðbólguna. „Koma verður á umbótum sem tryggja að allir hafi sameiginlega ábyrgð og hagsmuni af lítilli verðbólgu, auka skilvirkni efnahagsstjórnar, sem og auka fræðslu og samkeppni um neytendalán,“ segir í tilkynningunni.

Framsóknarmenn leggja til að:

  • 4% þak verði sett á hámarkshækkun verðtryggingar á neytendalán á ársgrundvelli
  • neytendum verði heimilt að breyta verðtryggðum lánum sínum í óverðtryggð án kostnaðar
  • óheimilt verði að hækka gjöld eða tekjur ríkissjóðs á grunni almennrar verðlagsþróunar nema sérlög eða samningar liggi þar að baki
  • grundvöllur ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna verði endurskoðaður
  • Seðlabanka Íslands verði falið að setja lánastofnunum reglur um verðtryggingarjöfnuð, hámark veðhlutfalla og lengd lánstíma vegna fasteigna og lóða
  • efnahags- og viðskiptaráðherra vinni frumvarp um stjórn efnahagsmála sem feli í sér tillögur að fleiri og ríkari heimildum til stjórnunar efnahagsmála þ.e. svokölluð ,,þjóðhagsvarúðartæki“ m.a. fyrir Seðlabanka Íslands. 

 Framsóknarmenn segja fordæmi fyrir þaki á hækkun verðbóta með lögum nr. 30/1972 sem setti 7,75% þak á hækkun verðtryggingar á húsnæðislán. Í dómi Hæstaréttar nr. 53/1990 er bent á að gera má ráð fyrir að breyting kunni að verða á grundvelli og/eða útreikningi verðtryggingar, nema fyrirvari sé gerður um annað í lánssamningum.  Í dómi Hæstaréttar nr. 600/2012 er bent á að breyting eða uppgjör á lánssamningi verði að vera til framtíðar líkt og gert er með 4% þakinu.

 „Framsóknarmenn telja því að hér sé meðalhófs gætt, aukinn hvati verði fyrir lánveitendur að hætta að veita verðtryggð lán til neytenda auk þess nauðsynlegt sé að jafna út og draga úr byrðum verðbólgu með auknum möguleikum til að ná stjórn á efnahagsmálum,“ segir í tilkynningu frá þingflokki framsóknarmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert