Samningaviðræður hófust í morgun um fjóra samningskafla í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins á ríkjaráðstefnu í Brussel. Viðræðum lauk samdægurs um tvo þeirra það er um utanríkis-, öryggis- og varnarmál, og um neytendamál og heilsuvernd. Frekari viðræður fara nú í hönd um hina samningskaflana en þeir fjalla um samkeppnismál og orkumál. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Í viðræðum um samningskafla 31 um utanríkis-, öryggis- og varnarmál kom meðal annars fram að Ísland deilir grunngildum með aðildarríkjum Evrópusambandsins svo sem virðingu fyrir mannréttindum og áherslu á friðsamlega lausn deilumála. Í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum er þátttaka í aðgerðum í hverju tilviki háð ákvörðun sérhvers ríkis. Þá var kunngerð sérstök sameiginleg yfirlýsing, sem verður hluti aðildarsamnings Íslands, þar sem sérstaða Íslands sem herlauss lands er áréttuð og tekið fram að aðild hafi ekki áhrif á gildandi lagagrundvöll, ábyrgð eða valdheimildir Íslands að því er varðar mótun og framfylgd stefnu þess í öryggis- og varnarmálum.
Samningskafla 28 um neytenda- og heilsuvernd var sömuleiðis lokað samdægurs en Ísland hefur innleitt viðkomandi löggjöf. Í umræðum kom fram að íslenskir neytendur hafa allt frá gildistöku EES-samningsins notið góðs af innleiðingu evrópskrar löggjafar á sviði neytendaverndar. Ísland hefur tekið þátt í samstarfi á sviði heilsuverndar en reglur ESB á því sviði eru einkum ráðgefandi. Af hálfu fulltrúa Evrópusambandsins kom fram sú afstaða að Ísland stæði vel að vígi í þessum málaflokki og var kaflanum lokað á sama fundi.
Viðræður hófust um samningskafla 15 um orkumál. Í samningsafstöðu Íslands kemur meðal annars fram að Ísland leggur áherslu á að aðild hafi ekki áhrif á fyrirkomulag á Íslandi varðandi eignarhald á orkuauðlindum. Sá skilningur var staðfestur af hálfu ESB með vísan í 194. grein Lissabon-sáttmálans þar sem réttur aðildarríkja til að stjórna eigin orkuauðlindum er undirstrikaður. Í afstöðu ESB kemur meðal annars fram að Ísland skuli leggja fram áætlun um það með hvaða hætti það hyggst uppfylla kröfu ESB um að viðhalda lágmarksbirgðum af olíu, sem og tímaáætlanir um það hvernig íslensk stjórnvöld hyggjast uppfylla ákvæði tilskipunar um sameiginlegar reglur fyrir innri markað með raforku og um öryggi kjarnorku og geislavarna. Þá kemur fram að ESB fellst á röksemdir um að löggjöf um innflutning hráolíu og um markað fyrir náttúrulegt gas eigi ekki við á Íslandi og því þurfi ekki að innleiða hana.
Loks var samningskafli 8 um samkeppnismál opnaður en honum ekki lokað. Fram kom að Ísland hefur að langmestu innleitt lög og reglur ESB á sviði samkeppnismála og hefur þá stofnanagetu sem til þarf til að framfylgja þeim. Í samningsafstöðu Íslands kemur meðal annars fram að Ísland hyggst viðhalda einkasölu ríkisins á áfengi og tóbaki í óbreyttri mynd, og að íslensk stjórnvöld muni viðhalda og tryggja tilvist opinbers félagslegs íbúðalánasjóðs með það að markmiði að tryggja fjármögnun á íbúðarhúsnæði fyrir einstaklinga og fylgja eftir félagslegri stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum. Evrópusambandið segir í samningsafstöðu sinni að kaflanum megi loka á grundvelli þess að Ísland haldi áfram að sýna fram á að löggjöf um auðhringi, samruna fyrirtækja og um ríkisaðstoð sé rétt framfylgt.
Samningaviðræður Íslands og ESB snúast um 33 kafla í löggjöf á mismunandi sviðum. Alls hafa 15 samningskaflar verið verið opnaðir og er samningum lokið um 10 þeirra.