Ekki kosið um stjórnarskrá samhliða forsetakjöri

Þingmenn í þingsal í gærkvöldi.
Þingmenn í þingsal í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþingi tókst ekki að greiða atkvæði fyrir miðnætti í gær um þingsályktunartillögu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Því verður ekki kosið um tillögur stjórnlagaráðs um leið og forsetakosningar eiga að fara fram hinn 30. júní næstkomandi samkvæmt gildandi lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir ákvað að fresta umræðu um málið og sleit fundi á miðnætti. Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingar, tók til máls um fundarstjórn forseta um kl. 23.30 og sagði að reynt hefði verið að ná samkomulagi á meðal formanna þingflokkanna að ljúka umræðu og atkvæðagreiðslu fyrir miðnættið. Hann sagði formann þingflokks sjálfstæðismanna ekki hafa viljað semja um lyktir málsins. Það hefði formaður þingflokks framsóknarmanna hins vegar verið tilbúinn að gera.

Kliður og frammíköll

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, sagði ríkisstjórnina hafa runnið út á tíma með málið og ekki hægt að kenna neinum öðrum um það. Mikill kliður og frammíköll voru í þingsalnum og þurfti forseti ítrekað að áminna þingmenn um að hafa hljóð.

Þorri þingmanna var enn í þinghúsinu á tólfta tímanum í gærkvöldi og nokkrir þingmenn á mælendaskrá. Síðari umræða um þingsályktunartillöguna hófst fyrir hádegi í gær. Stjórnarliðar sökuðu sjálfstæðismenn um að standa fyrir málþófi. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafnaði ásökunum í þá veru og sagði að ásakanir um slíkt væru vegna þess að stjórnarliðar treystu sér ekki í efnislega umræðu um málið. Hann benti einnig á að málið hefði ekki komið inn í þingið fyrr en í síðustu viku og síðan hefði það fengið forgang á dagskrá þingsins. Því hefði það ekki fengið mikla umræðu til þessa. Bjarni sagði að það væri ekki sök Sjálfstæðisflokksins að stjórnarmeirihlutinn væri að renna út á tíma með málið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert