Steingrímur: Endurtekið efni hjá Sjálfstæðisflokknum

„Ég var nú að vísu áhorfandi að því úr fjarlægð, en þetta er endurtekið efni að Sjálfstæðisflokkurinn kemur bara veg fyrir það að við komumst áfram með breytingar á stjórnarskránni. Þeir gerðu það 2007 og aftur 2009 þannig að þetta er endurtekið efni. Og mér finnst það umhugsunarefni," segir Steingrímur J. Sigfússon um lyktir stjórnarskrármálsins í gær.

Ljóst varð á miðnætti í gær að ekki verður kosið um breytta stjórnarskrá samhliða forsetakosningum í sumar, þar sem Alþingi tókst ekki að greiða atkvæði fyrir miðnætti um þingsályktunartillögu þess efnis. Samkvæmt lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur þarf Alþingi að taka ákvörðun um að þær skuli fara fram með þriggja mánaða fyrirvara, en hann rann út á miðnætti. 

Sjálfstæð þjóðaratkvæðagreiðsla einn kostur

„Mér finnst það langt gengið að koma í veg fyrir að hægt sé að leita álits þjóðarinnar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eftir alla þá miklu vinnu, undirbúning og kostnað sem búið er að leggja í að komast þangað sem við erum komin. En að sjálfsögðu látum við ekki staðar numið hér heldur skoðum hvaða kostir eru í boði,“ segir Steingrímur.

Steingrímur tók sjálfur ekki þátt í umræðunum í gær en hann er nýkomin heim frá Kanada. Aðspurður hvort til greina komi af hálfu ríkisstjórnarinnar að breyta lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur til að ná því fram að kosið verði 30. júní í sumar sagði Steingrímur að nú þyrftu menn að setjast niður fram yfir páskana og velta fyrir sér kostunum í stöðunni. 

„Það er að sjálfsögðu alltaf sá möguleiki í boði að fara í sjálfstæða þjóðaratkvæðagreiðslu síðar. Það er einn af kostunum, en þeir kunna að vera fleiri."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert