Fíkniefnasalar greiði sekt

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo karlmenn, fædda 1981 og 1983, til að greiða 360 þúsund krónur og 380 þúsund krónur í sekt fyrir að hafa í vörslum sínum um 33 grömm af amfetamíni. Mennirnir voru með efnin í sölu- og dreifingarskyni ásamt því að vera sjálfir í neyslu.

Lögregla gerði húsleit hjá mönnunum 30. apríl 2011 eftir að hún fékk upplýsingar um að fíkniefni frá þeim hefðu komist í hendur stúlku nóttina áður og hún látist af völdum neyslu þeirra. Þar sem talið hafi verið að um mjög hættuleg fíkniefni væri að ræða hafi verið ráðist inn til mannanna án tafar.

Lagt var hald á amfetamín í íbúðinni og á öðrum manninum. Samkvæmt matsgerð rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði frá 12. maí 2011 reyndist styrkur amfetamínbasa í sýni vera 16%, sem samsvari 22% af amfetamínsúlfati. Og samkvæmt annarri matsgerð rannsóknarstofunnar frá sama degi reyndist styrkur amfetamínbasa úr öðru sýni úr geymslu vera 12%, sem samsvari 16% af amfetamínsúlfati.

Meðalstyrkur amfetamínsýna á árunum 2006-2010 var um sautján prósent og því telst styrkur amfetamínsins undir meðallagi.

Mennirnir hafa báðir áður komið við sögu lögreglunnar vegna fíkniefnamála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert