Mikil ánægja er með þjónustu Garðabæjar við íbúa sveitarfélagsins. Ríflega 94% íbúanna telja að það sé gott að búa í Garðabæ og almennt eru bæjarbúar ánægðari með þjónustu sveitarfélagsins en íbúar annarra sveitarfélaga.
Þetta kemur fram í þjónustukönnun sem Capacent gerði í sextán stærstu sveitarfélögum landsins í október síðastliðnum. Í könnuninni var spurt út í viðhorf íbúa til ellefu þátta í þjónustu viðkomandi sveitarfélags og kom Garðabær best út, af þeim sveitarfélögum sem tóku þátt, í sjö flokkum af ellefu.
Minnst var ánægjan með þjónustu við eldri borgara, en þrátt fyrir það var Garðabær nokkuð fyrir ofan meðaltal sveitarfélaganna.
Þegar bornar eru saman einkunnir sveitarfélaganna eftir flokkum kemur í ljós að Garðabær var efstur á blaði þegar spurt var um almenna ánægju með bæinn sem búsetustað, almenna ánægju með þjónustu sveitarfélagsins, um skipulagsmál, gæði umhverfis í nágrenni við heimili, þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu grunnskóla bæjarins og ánægju með viðbrögð starfsfólks á bæjarskrifstofum við erindum íbúa.
Fleiri karlar en konur segjast mjög ánægðir með að búa í bænum og fólk á aldrinum 35-44 ára er ánægðasti aldurshópurinn.
Fleiri karlar en konur segjast mjög ánægðir með þjónustu Garðabæjar við barnafjölskyldur, eða 40% karla og 28% kvenna. Svipað hlutfall kynjanna segist vera mjög óánægt við þjónustuna við barnafólk.
Könnunin var gerð dagana 4.-20. október 2011. Úrtakið var alls 8.360 manns, þar af 512 úr Garðabæ.