Íbúakosning sem innkaupaferð

Borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, kynnir vefinn Betri Reykjavík.
Borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, kynnir vefinn Betri Reykjavík. Morgunblaðið/Ómar

Yfir tvö þúsund Reykvíkingar hafa þegar tekið þátt í íbúakosningu þar sem þeim gefst kostur á að kjósa um framkvæmdir sem í verður ráðist í hverfum borgarinnar á næstu mánuðum. Viðmótið þykir skemmtilegt og líkist frekar innkaupaferð en hefðbundinni kosningu. 

Lýsa má viðmótinu þannig að viðkomandi íbúi fær í hendurnar 300 milljónir króna og fer svo í að velja þau verkefni sem hann vill að verði framkvæmd í sumar. Hægt er að velja um verkefni í eigin hverfi eða öðru, en þó aðeins einu hverfi. Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, segir þetta jafnvel minna á að kaupa vörur í gegnum vefverslun Amazon. Kosningakerfið reiknar hversu mikið framkvæmdirnar kosta og lætur vita þegar fjármunirnir klárast.

Um er að ræða bindandi kosningu en ekki ráðgefandi. Borgin hefur eyrnamerkt 300 milljónir króna verkefninu og því er fullljóst að Reykvíkingar eru að hafa áhrif á sitt nærumhverfi, taki þeir þátt. Bjarni segir að erfitt hafi reynst að spá fyrir um hversu margir myndu taka þátt en hann vonast eftir að um tíu þúsund manns taki þátt. „Það væri mjög gott fyrir íbúalýðræðið. Að mínu viti ætti fólk að nýta sér þetta, prufa að taka þátt því um er að ræða skemmtilega nýjung í lýðræðinu.“

Kerfi sem nota má aftur og aftur

Kosið er um 180 áhugaverð verkefni í hverfum borgarinnar. Að því er borgin segir um þau  eru þetta verkefni sem fegra og bæta hverfin. Þá er kostnaður við einstaka verkefni mismunandi, sum kosta lítið en önnur allt að tíu milljónir króna. Verkefnin völdu íbúar Reykjavíkur sjálfir, hverfaráð röðuðu síðan 26 hugmyndum á hvert hverfi sem kosið er á milli. Íbúar velja á milli allt að þrettán verkefna í tvo flokka; nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni, í hvorn flokk eins og ráðstöfunarféð leyfir.

Þó svo Reykjavík hafi áður haldið íbúakosningar, og jafnvel rafrænar, hefur aldrei áður, á Íslandi, verið notast við rafræn auðkenni. Þau tryggja að íbúar kjósi ekki oftar en einu sinni, og gera kosninguna mun öruggari. Hægt er að nota hvort heldur sem er veflykil ríkisskattstjóra eða rafræn skilríki á debetkorti. Bjarni bendir á að nokkrir dagar séu síðan skila þurfti skattframtali og því ættu allir að hafa veflykilinn tiltækan. Því sé ekkert því til fyrirstöðu að taka þátt í kosningunni. 

Þá liggur fyrir að ef íbúakosningin gengur að óskum geti sama kerfi verið notað aftur og aftur, jafnvel um stór mál sem tekist er á um í borgarkerfinu.

Kosningin stendur til 3. apríl næstkomandi og hér má kjósa.

Að neðan getur að líta auglýsingu um íbúakosninguna þar sem borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, leikur aðhlutverk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert