Landlæknir fær ekki upplýsingar

Reuters

Persónuvernd telur að  lýtalæknar beri ábyrgð á þeim persónuupplýsingum sem þeir hafa skráð og varðveitt um sína sjúklinga og að þeir megi ekki miðla þeim til landlæknis. Ekki liggi fyrir í hvaða tilgangi landlæknir vildi fá að vita deili á öllum konum sem hafa fengið brjóstafyllingar eða hvað hann ætli að gera við þær upplýsingar. 

Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar um fyrirspurn Læknafélags Íslands um hvort læknum sé heimilt að láta landlækni í té persónugreinanlegar upplýsingar um allar þær konur sem hafa fengið brjóstafyllingar hjá þeim, frá árinu 2000. Um er að ræða leiðbeinandi svar.

„Hver lýtalæknir er ábyrgðaraðili þeirra persónuupplýsinga sem hann hefur skráð og varðveitt um þær konur sem hann hefur grætt í brjóstafyllingar. Á honum hvílir rík þagnarskylda. Það er á hans ábyrgð að gæta þess að þeim upplýsingum verði ekki miðlað til annarra nema skýr heimild standi til þess. Slík heimild getur verið samþykki hlutaðeigandi sjúklings en verður ekki heimiluð með lögum nema að uppfylltum skilyrðum 71. gr. stjórnarskrárinnar,“ segir í úrskurðinum.

Þar segir að af hálfu landlæknis hafi ekki komið skýrt fram til hvers hann vilji fá að vita deili á öllum konum sem fengið hafi brjóstafyllingar, óháð tegund, eða hvað hann ætli að gera við þær upplýsingar.

„Hvorki hefur hann sagst sjálfur ætla að veita konunum sérstök úrræði né þjónustu. Hann hefur aðeins nefnt að þróun mála kunni að gera það að verkum síðar að ná þurfi til kvenna sem ekki hafa PIP-brjóstafyllingar. Þá kunni að skapast þörf fyrir skoðun á fylgikvillum sem konur verða fyrir vegna brjóstafyllinga, t.d. með samkeyrslu við gögn úr öðrum heilbrigðisskrám. Hann hefur einnig nefnt að þær kunni að hafa fengið ígrædda brjóstapúða hjá einum lýtalækni en annar læknir numið þá í burtu.“


„Það er því svar Persónuverndar að hvorki verði ráðið af fyrirliggjandi gögnum, þeim sjónarmiðum sem landlæknir hefur sett fram, né gildandi lögum, að lýtalæknar megi miðla til landlæknis persónuupplýsingum um allar þær konur sem hafi fengið brjóstafyllingar hér á landi frá árinu 2000 til dagsins í dag.“

„Hvorki verður af erindi Læknafélagsins, svörum landlæknis né öðrum fyrirliggjandi gögnum annað ráðið  en að lýtalæknar beri ábyrgð á þeim persónuupplýsingum sem þeir hafa skráð og varðveitt um sína sjúklinga. Það er því þeirra hlutverk að tryggja öryggi upplýsinganna, virða trúnað um þær og gæta þess að miðla þeim ekki til þriðja aðila nema hafa til þess ótvíræða heimild.“

Úrskurður Persónuverndar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert