Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra sagði þegar hann mælti fyrir frumvarpi um veiðigjöld að ef veiðigjöldin hefðu verið lögð á árið 2010 hefðu þau skilað 12,5 milljörðum í ríkissjóð. Hann sagðist vera tilbúinn að ræða um málefnalegar ábendingar um efnisbreytingar á frumvarpinu.
Frumvarpið byggist á því að lagt verði annars vegar á almennt veiðigjald sem reiknað er með að skili um 4 milljörðum í ríkissjóð á ári. Hins vegar gerir frumvarpið ráð fyrir að lagt verði á sérstakt veiðigjald sem verði háð afkomu greinarinnar.
Steingrímur sagði að miðað við þetta frumvarp hefði sjávarútvegurinn greitt um 12,5 milljarða í veiðigjald árið 2010. Gjaldið er mismunandi eftir greinum og sagði Steingrímur að miðað við síðustu 10 ár hefðu uppsjávargreinar greitt veiðigjald í fimm ár af síðustu 10 árum. Botnsjávarveiðar hefðu greitt veiðigjald öll árin nema árið 2004. Það ár hefði veiðigjaldið engu skilað í ríkissjóð vegna lélegrar afkomu sjávarútvegsins.
Steingrímur sagði að í tengslum við álagningu veiðigjalda áformaði ríkisstjórnin að gera breytingu á lögum um tekjuskatt þannig að útgerðin gæti fært kostnað við keyptar veiðiheimildir niður í bókhaldi. Þetta myndi ekki síst nýtast útgerðum sem hefðu skuldsett sig til að kaupa veiðiheimildir. Þetta myndi leiða til lækkunar á tekjuskatti útgerðarfyrirtækja umfram það sem leiddi af álagningu veiðigjaldsins.
„Ég er móttækilegur fyrir öllum málefnalegum rökum og sjónarmiðum og vil taka þau til greina. Ég vil eiga samstarf við greinina um að skoða það vel, m.a. á grundvelli upplýsinga frá greininni sjálfri, þ.e.a.s. úr bókhaldi einstakra fyrirtækja sem er erfitt fyrir stjórnvöld að nálgast nema þá í samstarfi við slíka aðila. Á hinn bóginn er ég ekki sérlega móttækilegur fyrir stóryrðum eða hræðsluáróðri og hrekk skammt undan slíku,“ sagði Steingrímur undir lok framsöguræðu sinnar.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að miðað við meðaltal alls tímabilsins 2001–2010 yrðu tekjur að jafnaði 11,8 milljarðar á ári. Það eru nánast jafn miklar tekjur og reiknað er með að veiðigjald muni skila frá og með árinu 2013 í ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2012–2015, sem fjármálaráðuneytið lagði fram sl. haust, en þar er reiknað með 11 milljarða tekjum af veiðigjaldi.