Óskar þjófunum alls hins besta

Frá starfsemi Mæðrastyrksnefndar.
Frá starfsemi Mæðrastyrksnefndar. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Lögreglan hafði samband í dag og lét okkur vita af því að viðkomandi hefði gefið sig fram,“ segir Ragnhildur Guðmundsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar, en karlmaður gaf sig fram við lögreglu í dag og viðurkenndi að hafa brotist inn í húsnæði nefndarinnar í Hátúni í Reykjavík í fyrradag og stolið þaðan meðal annars tölvubúnaði.

Ragnhildur segir að mest af því sem stolið var hafi verið endurheimt en það sé þó enn í vörslu lögreglunnar á meðan rannsókn á málinu er ólokið. „Þetta er lögreglumál ennþá þannig að hún er enn með þetta allt á sínum snærum. Maður bara óskar þessum ógæfusömum mönnum alls hins besta og vonar að þeir komist yfir þá erfiðleika sem þeir eiga við að etja í sínu lífi. Það er greinilegt held ég að þarna eru miklir erfiðleikar á ferðinni.“

Hún segir það mjög gleðilegt að endurheimta það sem stolið var. „Þetta er bara eins og margt annað í þessu lífi, það eru ósköp að vita það hvað margir virðast eiga erfitt og ráða bara ekki við líf sitt.“ En Ragnhildur er mjög sátt við frammistöðu lögreglunnar í málinu. „Lögreglan er ansans ári dugleg oft finnst mér. Það má alveg hæla henni fyrir hennar störf.“

Aðspurð hversu mikið strik þetta setji í reikninginn fyrir starf Mæðrastyrksnefndar segir Ragnhildur það verða að koma í ljós. „Við erum að vona að við getum haldið starfi okkar áfram og erum að undirbúa það að vera með matarúthlutun á miðvikudaginn kemur og vonum að við getum tekið vel á móti okkar gestum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka