Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir auðlegðarskattinn vera sanngjarnt framlag á erfiðum tímum.
„Auðlegðarskattur er klárlega neyðarbrauð og ekki skattafyrirkomulag sem við viljum hafa viðvarandi. Með honum er leitað til þeirra sem eru efnaðastir í samfélagi okkar og þeir fengnir til að leggja sérstaklega af mörkum tímabundið í erfiðu árferði. Áætlað er að auðlegðarskatturinn verði út næsta ár, þó er ekki hægt í okkar erfiðleikum að útiloka að hann verði framlengdur eitthvað.“
Helgi talaði á fundi VÍB, eignastýringaþjónustu Íslandsbanka sem fór fram í hádeginu í gær. Í umfjöllun um fundinn í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að þar hafi sérstaklega verið fjallað um auðlegðarskattinn og kynntar upplýsingar sem VÍB lét taka saman um hann. Kom m.a. fram að tekjulágir eldri borgarar eru umtalsverður fjöldi greiðenda hans. Tveir þriðju hlutar greiðenda skattsins hafa árstekjur undir 5 milljónum kr. 37% þeirra sem greiða hann eru 65 ára eða eldri og 22% greiðenda 75 ára og eldri. Helgi sagði það ekki óeðlilegt.