„Við gefumst ekki upp. Við munum halda áfram að vinna að gerð stjórnarskrárinnar í samvinnu og samráði við fólkið í landinu en ekki í bakherbergjum með einhverjum útvöldum. Sjálfstæðismenn stoppa okkur ekki í því,“ sagði Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í ræðu sinni á Alþingi rétt fyrir miðnætti.
Valgerður sagði að þingflokki Sjálfstæðisflokksins hefði tekist að koma í veg fyrir að vilji meirihluta Alþingis næði fram að ganga. Hún sakaði þingflokkinn um málþóf og sagði þá hafa talað í 10 klukkutíma í dag.
Hún sagði þá hafa komið í veg fyrir að fólkið í landinu fengi að lýsa vilja sínum til þess hvort ný stjórnarskrá yrði samin á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs.
Hún sagði málþóf Sjálfstæðisflokksins hafa heppnast. Hún sagði sjálfstæðismenn kæra sig kollótta um það fjölmarga fólk í landinu sem nú vildi segja hug sinn í því efni hvernig stjórnarskráin liti út og sagði þá nota gömlu aðferðirnar við gerð nýrrar stjórnarskrár.
Valgerður fagnaði þeirri yfirlýsingu forseta Alþingis um að fresta umræðunni um miðnætti og slíta þingfundi. „Hún mun engu skila hér í kvöld,“ sagði Valgerður um umræðuna um málið.
Jón Gunnarsson veitti andsvar við ræðu Valgerðar og spurði stjórnarliða hvort þeir væru nú hættir við þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Hann sagði málinu ekki ljúka þó svo að ekki yrðu greidd atkvæði um það í júní og sagði að þegar lýðræði væri annarsvegar skiptu peningar ekki öllu máli.
Jón var harðorður í garð stjórnarmeirihlutans og sagði: „Þegar lýðræðið og kommúnisminn mætast þá skal lýðræðið víkja.“ Hann sakaði „kommana“ í ríkisstjórn um að koma illa fram í umræðum um stjórnarskrá landsins og sagði slíkt ekki til sóma fyrir neinn. Hann hvatti til þess að umræðan yrði látin fara fram málefnalega og að svo verði boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Helgi Hjörvar veitti einnig andsvar við ræðu Valgerðar og sagði sjálfstæðismenn hrædda við að almenningur fengi að láta í ljós álit sitt á málinu.
„Með klækjabrögðum hafa þeir komið í veg fyrir, að þeir halda, að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram samhliða forsetakosningum í júní,“ sagði Helgi og hvatti þingið til að leita leið til þess að atkvæðagreiðslan gæti farið fram samhliða forsetakosningum, þrátt fyrir núverandi lagaákvæði um að slíkt væri ekki heimilt þannig að sjálfstæðismönnum tækist ekki ætlunarverk sitt.
Að loknu andsvari Helga Hjörvar frestaði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, umræðunni og sleit þingfundi á miðnætti.