Brýnt að bæta samgöngurnar

Frá Ísafirði. Vegir á Vestfjörðum eru gamlir og óöruggir og …
Frá Ísafirði. Vegir á Vestfjörðum eru gamlir og óöruggir og nauðsynlegt er að efla samgöngur til að draga úr fólksfækkun. Sigurður Bogi

„Við höfum kannski 30 ár til að bjarga byggðinni á Vestfjörðum, annars leggst hún af,“ segir Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri. Íbúum í landshlutanum hefur fækkað um helming á undanförnum 100 árum. „Forsendan fyrir því að snúa þróuninni við er að tengja svæðið saman með heilsársvegum og búa til hringveg um Vestfirðina.“

Eins og fjallað var um í grein á mbl.is fyrir helgi þá eru vegirnir um Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði gamlir og óöruggir. Sé keyrt um þá milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar er leiðin u.þ.b. 180 km en þegar vegirnir eru lokaðir, sem þeir eru yfirleitt yfir vetrartímann, þarf að taka stóran krók í gegnum Hólmavík og mælist leiðin þá 455 km. Fyrir þá sem þurfa að keyra á milli Bíldudals og Þingeyrar lengist leiðin úr 98 km í 531 km. Rætt hefur verið um jarðgöng sem leysi Hrafnseyrarheiði af, Dýrafjarðargöng, en fyrirséð að ekki verður ráðist í gerð þeirra á næstunni.

„Í raun og veru getum við sagt að vegurinn á milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða sé aðeins nothæfur á sumrin sem þýðir að þótt hann gagnist ferðamönnum þá geta íbúar, sem þurfa að sækja sjúkraþjónustu, menntun eða atvinnu, ekki treyst á leiðina,“ segir Þóroddur. Lykilatriðið sé að endastöðvar eigi yfirleitt erfitt uppdráttar, þ.e.a.s. þar sem keyra þurfi langan veg og síðan sömu leið tilbaka. Norðanverðir Vestfirðirnir og þeir sunnanverðu séu hvorir um sig endastöðvar. „Þegar menn fóru út í Héðinsfjarðargöngin var meginröksemdin sú að Siglufjörður ætti enga möguleika á meðan hann væri endastöð. Með því að búa til hringtengingu breyttist öll dýnamíkin á svæðinu og eins og hendi væri veifað stöðvaðist fólksfækkunin og í fyrsta skipti í áratugi er fólksfjölgun. Þetta á margfalt við fyrir vestan. Séu sunnanverðir og norðanverðir Vestfirðirnir tengdir saman er komið miklu stærra þjónustusvæði sem getur haldið uppi og eflt þjónustu sem á Ísafjarðarsvæðinu er alveg á mörkunum að ganga. Það, að gera heilsárstengingu á milli svæðanna og búa til hringveg 2 þannig að Ísfirðingarnir færu sunnanverða Vestfirðina á leiðinni annað, myndi setja Patreksfjörð í alfaraleið og gjörbreyta sóknarfærum á svæðinu.“

Íbúafjöldinn nálgast „krítísk“ mörk

Fleiri búa á landsbyggðinni nú en nokkru sinni áður, í kringum 100 þúsund manns, þótt íbúar á landsbyggðinni verði hlutfallslega æ minni hluti þjóðarinnar vegna þess hve fjölgunin er mikil á höfuðborgarsvæðinu. Í flestum landshlutum hefur mannfjöldinn tvö- og þrefaldast, jafnvel fjórfaldast, á síðustu 100 árum. „Eina verulega undantekningin frá þessu eru Vestfirðirnir. Þar hefur íbúum fækkað um helming á síðustu öld, úr 14 þúsund í u.þ.b. 7 þúsund, og það hægist ekki á fólksfækkuninni. Íbúafjöldinn nálgast krítísk mörk,“ segir Þóroddur.

Að hans mati er nauðsynlegt að ganga þannig frá grunngerðinni að fólki sé gert auðvelt fyrir að byggja svæðið upp. Það myndi gjörbreyta aðstæðum fyrir ferðaþjónustu, sjávarútveg, uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu o.fl. fengju Vestfirðingar að taka meira af þeim málum, sem skipta þá mestu, í eigin hendur. „Það skiptir gríðarmiklu máli fyrir byggðaþróun að þeir skattar sem eru borgaðir á svæðunum séu nýttir þar. Til að 7.000 manns geti tekið að sér öll þessi verkefni sem er verið að tala um er alger forsenda að þetta sé eitt svæði. Eins og þetta er núna eru þetta þrjár eyjar,“ segir Þóroddur. Þarna skipti vegbætur og vegstyttingar miklu máli. „Ef fólksfækkun heldur svona áfram þá kemur að því að svæðið getur ekki staðið undir þeirri þjónustu sem er nauðsynleg til að fólk geti búið þar áfram.“

Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við HA og stjórnarformaður Byggðastofnunar.
Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við HA og stjórnarformaður Byggðastofnunar. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert