Google Earth gegn hvalveiðum Íslendinga?

Hvalveiðiskipið Hvalur 9 heldur úr Reykjavíkurhöfn til hvalveiða.
Hvalveiðiskipið Hvalur 9 heldur úr Reykjavíkurhöfn til hvalveiða. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ef Ísland er skoðað í forritinu Google Earth sjást þrjár merkingar við landið sem hægt er að smella á til þess að fá frekari upplýsingar. Ein er við Surtsey þar sem hægt er að fræðast um eyjuna og önnur fjallar um rannsókn um tengsl sandstorma á Íslandi og bráðnum jökla. Sú þriðja er við Húsavík og þar er vísað í upplýsingar þar sem fjallað er með mjög gagnrýnum hætti um hvalveiðar Íslendinga.

Textinn sem kemur upp þegar smellt er á merkinguna fjallar um það að írski leikarinn Pierce Brosnan hafi árið 2009 stutt sjónvarps- og blaðaauglýsingar „gegn hræðilegri tillögu í Alþjóðahvalveiðiráðinu sem hefði lögleitt hvalveiðar í hagnaðarskyni innan tveggja áratuga.“ Þá segir að Brosnan hafi hvatt Barack Obama Bandaríkjaforseta til þess að standa við kosningaloforð sitt um að vernda hvalina en fyrirsögn textans er: „Pierce Brosnan talar gegn hvalveiðum Íslendinga“.

Undir textanum eru síðan tenglar á nokkrar greinar á heimasíðu bandarísku náttúruverndarsamtakanna NRDC þar sem farið er hörðum orðum um hvalveiðar Íslendinga og þær meðal annars kallaðar viðbjóðslegar og villimennska og hvatt til þess að refsiaðgerðum verði beitt gegn Íslandi vegna þeirra.

Einn tengillinn vísar í gagnrýni á hvalveiðar Íslendinga á heimasíðu viðskiptaráðuneytis Bandaríkjanna. Hins vegar vekur athygli að enginn tengill er að sama skapi á heimasíður íslenskra stjórnvalda eða annað efni þar sem afstaða Íslendinga er útskýrð.

Hvalveiðar Íslendinga gagnrýndar í Google Earth.
Hvalveiðar Íslendinga gagnrýndar í Google Earth.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert