Jarðarstund í Reykjavík

Styttan af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli.
Styttan af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli. mbl.is

Reykjavíkurborg tekur þátt í alþjóðlegum viðburði í ljósaskiptunum í kvöld, laugardaginn 31. mars. Borgir í 140 öðrum löndum taka jafnframt þátt. Viðburðurinn nefnist Earth Hour eða Jarðarstund og felst í því að kveikja ekki rafmagnsljós milli 20:30 til 21:30. Reykjavíkurborg tekur þátt í Grænum apríl og stendur fyrir nokkrum viðburðum af því tilefni. Jarðarstundin gefur tóninn fyrir það sem koma skal í mánuðinum.

Jarðarstundin var haldin í fyrsta skipti í Ástralíu fyrir nokkrum árum og teygir nú anga sína út um víða veröld. Stundin er skipulögð af sjálfboðaliðum og er markmiðið að hvetja hvern og einn til að velta fyrir sér hvað hann geti lagt af mörkum í þágu umhverfisins.

Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa, fyrirtæki og stofnanir til að kveikja ekki rafmagnsljósin þessa stund. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að milli 20:30 og 21:30 dimmi hratt og borgarbúar séu hvattir til þess að kveikja fremur á kertum en rafmagnsljósum.

„Borgin vinnur að því að öll helstu ljós verði slökkt í miðborginni og hægt verði að njóta myrkurs frá Arnarhóli. Stemmningin verður þó ekki aðeins þar heldur á hverju því heimili þar sem ljósin eru ekki kveikt. Vonir standa til þess að sem flestir taki þátt í þessu framtaki, slökkt verði á byggingum og götuljósum þar sem því er við komið.“

Grænn apríl er verkefni sem hópur áhugafólks um umhverfismál hrinti í framkvæmd í fyrsta sinn árið 2011. Markmiðið er að fá ríkisstjórnina, sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga til að kynna vöru, þekkingu og þjónustu sem er græn og umhverfisvæn og styður við sjálfbæra framtíð á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert