Launakostnaður Seðlabanka Íslands hækkaði um 19% milli áranna 2010 og 2011. Hækkunin nemur 8,6% ef tekið er tillit til þess að starfsmönnum fjölgaði á þessum tíma úr 147 í 161. Þetta kemur fram á vef Vefþjóðviljans.
Í greininni er jafnframt rifjað upp að Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, lýsti síðastliðið haust yfir undrun sinni á 4% kauphækkun, sem launþegar og vinnuveitendur höfðu þá nýlega samið um.
Í grein Vefþjóðviljans segir:
„Síðastliðið haust máttu vinnuveitendur og launþegar þeirra sitja undir skömmum Þórarins G. Péturssonar aðalhagsfræðings Seðlabanka Íslands fyrir kauphækkanir. Seðlabankamönnum þóttu slíkar umvandanir við hæfi jafnvel þótt þessar almennu umsömdu hækkanir upp á um 4% dygðu ekki til að halda í við verðfall á mynt bankans, sem yfirvöld neyða launagreiðendur til að greiða launin með.
Eftirfarandi var haft aðalhagfræðingnum [innsk. þ.e. í Viðskiptablaðinu]:
„Hvernig datt ykkur í hug að semja um þessar launahækkanir?““
Í greininni segir jafnframt að Seðlabankinn hafi nýlega gefið út ársskýrslu sína fyrir árið 2011 og þar komi fram að launakostnaður hafi hækkað úr 1.046.445.000 kr. árið 2010 í 1.244.203.000 kr. árið 2011. Þessi hækkun nemi 19% eða 8,6% sé tillit tekið til þess að starfsmönnum hafi fjölgað úr 147 í 161 á þessum tíma.
Í greininni er einnig rifjað upp að Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hafi stefnt bankanum vegna 25% launahækkunar sem hann telji sig eiga inni og því geti áðurnefnd 19% hækkun í raun verið vanmetin.
„Annað sem vekur athygli þegar launakostnaður bankans er skoðaður er hlutfall lífeyrisgreiðslna af launagreiðslum. Í flestum fyrirtækjum landsins er þetta hlutfall 10%. Vinnuveitandi greiðir 8% í sameignarsjóð og 2% í séreignarsjóð, samtals 10%. Hjá Seðlabanka Íslands er þetta hlutfall 13,7%.
Það virðist því sem bankinn greiði starfsmönnum sínum að meðaltali nær tvöfalt hærra mótframlag í séreignasjóð en venjulegt launafólk fær.“