Að minnsta kosti átta tonn af sælgæti eru seld í svokölluðum nammibörum á hverjum laugardegi um allt land. Árlega eru seld um 800 tonn í heild og nemur andvirði sölunnar meira en milljarði króna.
Á nammibörum geta viðskiptavinir valið sér sælgæti eftir eigin höfði. Tegundirnar skipta hundruðum. Borgað er eftir vigt og kostar kíló af sælgæti um 2.500 krónur í miðri viku en fæst á helmingsafslætti á laugardögum.
Á milli 60 og 80% af sölu á nammibörum fer fram á laugardögum en í úttekt Frjálsrar verslunar frá síðasta ári kemur fram að um 800 tonn séu seld úr nammibörum sem bland í poka á hverju ári. Sé tekið mið af þessum tölum má gera ráð fyrir að sælgæti sé selt á nammibörum fyrir 1,2-1,5 milljarða króna ár hvert.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að sala á hverjum laugardegi nemur að minnsta kosti átta tonnum að meðaltali. Andvirði þess nemur um 100 milljónum króna.