„Ef við gefum okkur það að 90% af sjávarútvegi séu á landsbyggðinni og þetta séu 30 milljarðar sem komi sem tekjur í ríkissjóð í gegnum veiðigjald, þá eru þetta þrír milljarðar í Reykjavík og 27 milljarðar á landsbyggðinni,“ segir Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, um nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnun og veiðigjald.
Þetta segir Adolf í viðtali sem birtist í nýjasta tölublaði Austurgluggans.
„Svo eiga menn að fá ölmusu í gegnum byggðapotta og kvótaleigu, hitt fer í ríkissjóð. Það er því verið að soga alla peninga til Reykjavíkur, þetta er því landsbyggðarskattur,“ segir Adolf.
Adolf er eigandi Gullbergs á Seyðisfirði og segir að frumvarpið hafi veruleg áhrif á fyrirtækin á Austurlandi. Hann tekur eigið fyrirtæki sem dæmi og segir að verði frumvarpið að lögum verði það „ónýtt á innan við fimm árum“.
„Ég get ekki ímyndað mér annað en að þetta hafi verulega slæm áhrif á t.d. Loðnuvinnsluna og Síldarvinnsluna þótt þau muni örugglega hafa þetta af, sökum þess að þau eru lítið skuldsett.“
Adolf segir að með frumvarpinu sé verið að breyta kerfinu úr því að vera fiskveiðistjórnunarkerfi í skattlagningarkerfi.