Annríki blaðamanna er að öllu jöfnu talsvert meira hinn 1. apríl en aðra daga ársins, en einhverra hluta vegna gerast ýmsir merkisatburðir þann daginn. Til dæmis er með ólíkindum hversu mörg frægðarmenni ákváðu að leggja leið sína til landsins í dag. Einhverjum kynni að þykja einhverjar fréttanna ótrúverðugar, en dæmi hver fyrir sig.
Til dæmis greindu fréttavefirnir 641.is og 640 Norðurþing og nágrenni frá því að sveitarfélögin á Norðurlandi eystra hefðu skrifað undir leigusamning við Huang Nubo á jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum. Samkvæmt fréttinni var samningurinn undirritaður á Hótel Húsavík kl. 13:00 í dag og í kjölfarið kynnti Nubo áform sín um uppbyggingu lúxushótels á Grímsstöðum á Fjöllum. Voru atvinnulausir Þingeyingar sérstaklega hvattir til að kynna sér þau störf sem í boði væru.
Fornt handrit og Fowler á Selfossi
Vikudagur á Akureyri sagði frá því að Elísabet önnur Bretadrottning myndi hafa viðkomu á Akureyri í dag á leið sinni til Japans og að drottning hygðist festa kaup á lopa og gæða sér á kjötsúpu.
Feykir staðhæfði að komið hefði í ljós að skinn úr handriti sem fannst við uppgröft í fornum grafreit á Helgastöðum í Víðidal í Vesturfjöllum í Skagafirði væri blaðsíða úr hinni glötuðu bók er greinir frá Gauki á Stöng í Þjórsárdal. Áhugasömum var boðið að berja skinnið augum ásamt öðrum munum er fundust við þennan merka fund, í dag milli 14:00 og 17:00 í Minjahúsinu á Sauðárkróki.
Samkvæmt frétt Sunnlenska er enska markamaskínan Robbie Fowler, fyrrverandi leikmaður Liverpool og fleiri liða í ensku úrvalsdeildinni, til reynslu hjá liði Selfyssinga í knattspyrnu næstu dagana.
Skálað í heitu vatni og ritstjóri býður sig fram
Þá greindi fréttavefurinn Strandir.is frá því að heitt vatn hefði fundist við hafnarframkvæmdir við Hólmavíkurhöfn á föstudaginn og í tilefni þess yrði hópeflissamkoma og skálað í heita vatninu á bryggjunni í dag klukkan 16:00.
Magnús Magnússon, ritstjóri Skessuhorns, sagðist gefa kost á sér í embætti forseta Íslands og kallaði eftir stuðningi.
Sel var stolið úr Húsdýragarðinum og honum síðan sleppt í Reykjavíkurtjörn. Frá þessu greindi visir.is og þar sagði Tómas Óskar Guðjónsson, líffræðingur og forstöðumaður Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, að starfsfólki garðsins væri síður en svo skemmt yfir athæfinu.
Stórstjörnur á Austfjörðum
Margur Austfirðingurinn hefur væntanlega fengið fiðring þegar hann las frétt um að leikstjórinn Clint Eastwood væri með leikaraprufur fyrir nýjustu mynd sína, sem til stendur að taka upp á Austurlandi, klukkan 14:00 á Hótel Héraði í dag. Leitað var að 100 hraustum Austfirðingum til að leika í bardagasenum myndarinnar.
Þá var enginn annar en Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands og fyrrverandi forseti, sagður ætla að gista í Keflavík í nótt, samkvæmt Víkurfréttum.
Draugagangur á Núpi
Fréttavefur Bæjarins besta á Ísafirði sagði að ótrúleg ljósmynd hefði náðst á Hótel Núpi í Dýrafirði í sumar þar sem yfirnáttúrlegur svipur náðist á filmu. Sigurður Arnfjörð Helgason hótelstjóri sagði um að ræða draug sem einn af gestum hótelsins hefði náð að smella mynd af.
Sjálfur hefði hann ekki trúað því fyrr en hann sá myndina. „Ég veit eiginlega ekki hvað skal segja. Fjölmargir hafa fundið fyrir einhverri nærveru hér á Núpi í gegnum árin en þetta er í fyrsta sinn svo ég viti til sem einhverjar sannanir um að hér sé draugur koma fram,“ sagði Sigurður í samtali við bb.is.
Vefmiðillinn Svipan sagði frá því að mikið magn af hvítu dufti hefði rekið á land í Fossvogi undanfarna daga. Var þar leitt líkum að því að um fíkniefni að ræða og skilvísir finnendur beðnir um að koma fundi sínum til lögreglu eða tollgæslu.